Atvinnulíf

Lúlla dúkka nú viðurkennd sem nauðsynjavara

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Eyrún Eggertsdóttir framkvæmdastjóri Róró og Lúlla dúkka.
Eyrún Eggertsdóttir framkvæmdastjóri Róró og Lúlla dúkka. Vísir/Vilhelm

„Við höfum frá upphafi selt um hundrað og sextíu þúsund dúkkur, það er mismunandi eftir árum hve mikið. Þetta ár hefur verið nokkuð erfitt ár fyrir okkur og Covid ástand spilaði þar stórt hlutverk,“ segir Eyrún Eggertsdóttir stofnandi og einn eigandi Róró sem framleiðir Lúllu dúkku.

„Á sumum okkar stærstu mörkuðum hafa allar búðir lokast og aðeins leyft að selja það sem er viðurkennt sem nauðsynjavara í netsölu,“ segir Eyrún og bætir við: „Okkur til mikillar ánægju fengum við þó á endanum Lúllu viðurkennda sem nauðsynjavöru vegna þess að hún hjálpar börnum með kvíða og svefnvanda og það er auðvitað alveg nauðsynlegt.“

Róró, framleiðandi Lúllu dúkku, er eitt þeirra fjölmargra fyrirtækja sem varð til í síðustu kreppu, þ.e. eftir bankahrun. Róró var stofnað árið 2011 en það árið vann hugmyndin að Lúllu dúkkunni Gulleggið.

Lúlla fór strax í útrás

Hönnun Lúllu dúkku byggir á rannsóknum sem sýna að nærvera foreldris bætir svefn, vellíðan og öryggi nýfæddra barna. Þróunartímabil dúkkunnar stóð yfir í þrjú ár en hún líkir eftir nærveru foreldris með því að spila upptöku af hjartslætti móðurinnar í slökun. Lúlla dúkka hjálpar þannig börnum að sofa þegar nærvera foreldris er ekki möguleg. 

Þegar hönnun dúkkunnar lauk var farið í hópfjármögnun sem tryggði að framleiðslan fór af stað árið 2014. Árið 2015 fór dúkkan síðan í sölu og dreifingu.

En strax frá upphafi var vitað að Ísland væri of lítill markaður fyrir Lúllu dúkku. Núna eru stærstu sölusvæði dúkkunnar Ástralía, Nýja Sjáland og Bandaríkin. Á ensku heitir Lúlla dúkka Lulla doll.

Við seljum nær eingöngu í vefsölu á Bandaríkjamarkaði og þá bæði á Amazon og okkar vefsölu. Á öðrum svæðum í heiminum seljum við mun meira til dreifingaraðila og í búðir og er það í heildina litið stærra hlutfall af seldum dúkkum,“ 

segir Eyrún.

Við hönnun Lúllu dúkku var meðal annars horft sérstaklega til fyrirbura og ungbarna á spítölum.

Lúlla fer á spítala

Að sögn Eyrúnar getur það skipt máli að söluaðili sé í nálægð við sinn markað. ,,Þess vegna ákváðum við að selja einnig áfram til dreifingaraðila sem að sjá um sína markaði og geta farið á sýningar og átt í samskiptum við búðir og viðskiptavini,“ segir Eyrún.

En hvert er lykilatriðið við markaðsetningu á vöru fyrir erlendan markað?

„Lykilatriði fyrir markaðssetningu held ég að geti verið þau sömu á öllum mörkuðum. Vera áhugaverður og lifandi í markaðssetningu. Reyna að koma sögunni sinni og vörunni á framfæri í sem stærstum miðlum sem ná til sem flestra,“ segir Eyrún og bætir við: „Prófa sig áfram og velja fleiri en eina leið.“

Lúlla dúkka er framleidd í Kína. Að sögn Eyrúnar er Róró nú með marga nýja dreifingaraðila bæði í Asíu og í Evrópu. Hjá Róró starfa fimm manns í fullu starfi og eru starfsmenn allir staðsettir á Íslandi.

Í lokin spurðum við Eyrúnu hvar hún sæi fyrir sér Róró og Lúllu dúkku eftir 3-5 ár.

„Ég vona að Lulla doll haldi áfram að komast í hendurnar á börnum út um allan heim og hjálpi þeim með líðan og svefn. Við erum að koma með nýjar vörur í næsta mánuði til að ná til enn breiðari aldurshóps og ég er mjög spennt fyrir því.

Sérstaklega er ég spennt fyrir vörunni fyrir minnstu veiku börnin sem við hönnuðum til að fá frekar leyfi inná spítala,“ 

segir Eyrún.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×