Það er langt því frá að vera hundrað prósent að Thiago verði með í leiknum gegn Ajax í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið. Þetta sagði Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, í samtali við heimasíðu félagsins.
Thiago fékk högg í grannaslagnum gegn Everton um helgina og það gæti leitt til þess að hann missi af leiknum gegn Ajax í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar á miðvikudagskvöldið.
„Hann fékk högg, eitt mjög þungt högg. Þetta er ekki næstum því jafnt slæmt og hjá Van Dijk en hvort að hann sé klár á miðvikudaginn? Ég veit það ekki. Við verðum að bíða og sjá,“ sagði Klopp í samtali við heimasíðu Liverpool en Virgil Van Dijk sleit krossband í leiknum.
Managing the Reds against a fellow heavyweight of European football is a prospect that excites Jürgen Klopp... #LFC | #UCL
— Liverpool FC (@LFC) October 19, 2020
Það er þó nokkuð um meiðsli í leikmannahópi Liverpool og eins og greint var frá fyrr í dag er óvíst hverjir verða í miðri vörn liðsins. Þó eru einhverjar jákvæðar fréttir einnig úr herbúðum liðsins.
„Naby æfði með í gær svo þetta er jákvætt. Oxlade tekur aðeins lengri tíma en þetta lítur vel út og hann er í góðu skapi. Alisson er einnig byrjaður að æfa með,“ bætti Klopp við.
Leikur Liverpool og Ajax verður í beinni útsendingu á miðvikudagskvöldið. Upphitun hefst klukkan 18.30 og öllum leikjum dagsins verður svo gerð skil í Meistaradeildarmörkunum eftir leik.