Innlent

Forseti ASÍ segir öfl í samfélaginu vilja svipta launafólk réttindum

Heimir Már Pétursson skrifar
Forseti ASÍ segir marga vilja nýta ferðina þegar kreppir að til að hafa réttindi af launafólki.
Forseti ASÍ segir marga vilja nýta ferðina þegar kreppir að til að hafa réttindi af launafólki. Mynd/aðsend

Forseti Alþýðusambandsins segir öfl í samfélaginu sem vilji losna við lágmarksvernd launafólks. Núverandi kreppa megi ekki verða til að auka ójöfnuð. Lausnin væri ekki niðurskurður í velferðarkerfinu eða stórfelldar kjaraskerðingar heldur að sækja fram og skapa störf.

Drífa Snædal forseti Alþýðusambandsins fór yfir það sem hefði áunnist með síðustu kjarasamningum í setningarræðu sinni á þingi ASÍ í morgun. Til að mynda með lækkun vaxta, lækkun skatta, hærri launum og hærri barnabótum. Mikið verk væri þó óunnið. Í kreppunni vegna faraldursins hefði atvinnuleysi stóraukist og nú væru um 20 þúsund manns án atvinnu.

„Á krepputímum eru teknar ákvarðanir sem móta framtíðina og það er okkar að sækja fram fyrir hönd almennings í landinu og tryggja að slíkar ákvarðanir séu í þágu okkar allra,“ sagði Drífa.

Það hafi ekki farið fram hjá neinum að atvinnurekendur hafi þrýst á um launalækkanir eða kjaraskerðingar með vísan til ástandsins.

„Þetta eru oft sömu raddirnar og segja okkur að við séum öll á sama báti. Við erum það ekki og höfum aldrei verið. Fólk sem vinnur á strípuðum töxtum eða hefur misst lífsviðurværið er ekki á sama báti og fjármálaráðherra eða forstjórar. Bara engan veginn,“ sagði forseti ASÍ.

Í landinu væru beinlínis öfl sem vildu losna við lágmarksvernd launafólks. Sem teldu atvinnuleysistryggingar ýta undir leti og að fólki væri fullur sómi sýndur með innan við 300 þúsund krónur til mánaðalegrar framfærslu.

„Við vinnum okkur ekki út úr þessari kreppu með niðurskurði í velferðarkerfunum okkar eða stórfelldum kjaraskerðingum. Við vinnum okkur út úr þessu með því að sækja fram, verja kjörin og verja velferðina,“ sagði Drífa Snædal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×