Fótbolti

Höfum búið til góðan markamun gegn Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir og Caroline Seger mætast að nýju næsta þriðjudag.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Caroline Seger mætast að nýju næsta þriðjudag. Vísir/Vilhelm

Svíþjóð stendur betur að vígi en Ísland í baráttunni um efsta sæti F-riðils í undankeppni EM kvenna í fótbolta, nú þegar fjórir dagar eru í að liðin mætist í Gautaborg.

Ísland og Svíþjóð gerðu 1-1 jafntefli á Laugardalsvelli fyrir mánuði en hafa unnið aðra leiki sína í keppninni. Svíþjóð er því með 16 stig eftir 6 leiki en Ísland með 13 eftir 5 leiki.

Ef liðin gera aftur 1-1 jafntefli á þriðjudaginn og vinna aðra leiki sína (Ísland á eftir útileiki við Ungverjaland og Slóvakíu) mun markatala ráða því hvaða lið nær efsta sæti. Með því að vinna Lettland 7-0 í gær er Svíþjóð með +30 í markatölu. Ísland, sem vann Lettland 9-0 í síðasta mánuði, er með +19 í markatölu. Ellefu mörkum munar því en Ísland á leik til góða.

„Núna erum við með ellefu mörkum meira en Ísland svo við höfum búið okkur til góðan markamun. Við gerðum sjö mörk í dag en miðað við yfirburðina sem við höfðum þá hefði maður viljað fleiri mörk,“ sagði Peter Gerhardsson þjálfari Svía við SVT.

Hvert mark og stig skiptir líka máli fyrir liðið sem endar neðar

Ef Ísland og Svíþjóð gera 0-0 jafntefli í Gautaborg, en enda jöfn að stigum í riðlinum, endar Svíþjóð ofar vegna fleiri marka skoraðra á útivelli í innbyrðis leikjum liðanna. Að sama skapi yrði Ísland ofar ef liðin yrðu jöfn að stigum, geri þau 2-2 eða 3-3 jafntefli og svo framvegis.

Markatalan getur skipt miklu máli fyrir liðið sem endar í 2. sæti riðilsins, sem og hvert stig sem safnast í sarpinn. Þrjú lið með bestan árangur í 2. sæti í undanriðlunum níu komast nefnilega beint á EM. Hin sex liðin fara í umspil.

Sem stendur er Ísland með þriðja besta árangurinn af þeim liðum sem eru í 2. sæti síns riðils, og því í augnablikinu á leiðinni á EM í Englandi en mikið vatn á eftir að renna til sjávar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×