Umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær, tillögu frá skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg, að hefja gjaldtöku á hleðslustöðvum fyrir rafbíla í miðborginni sem borgin rekur.
Þrettán stöðvar voru settar upp í miðborginni árið 2018 og var verkefninu ætlað að örva orkuskipti í samgöngum. Fimm þeirra er að finna í bílastæðahúsum en sjö eru á götustæðum víðsvegar um miðbæinn. Hingað til hefur hleðsla á þessum stöðum verið gjaldfrjáls en nú er að verða breyting á því.
Mikilvægt að gæta að samkeppni
Í tillögunni segir að gjaldtaka muni hvetja menn til að losa stæðin fyrr en ella auk þess sem að með gjaldtöku sé gætt að samkeppni á þessum markaði, en hleðslustöðvum sem reknar eru af einkaaðilum hefur fjölgað undanfarið auk þess sem rafbílum fer hratt fjölgandi á landinu öllu. Þá hefur borgin jafnframt boðið út rekstur hleðslustöðva á þrjátíu og tveimur stöðum í borgarlandinu öllu og þar er gert ráð fyrir að þjónustuaðili innheimti gjald. Því sé tímabært að rukka einnig í miðborginni.
Enn á eftir að útfæra gjaldtökuna en í bréfinu segir að ýmsar leiðir séu færar í þeim efnum.