Innlent

12 þúsund mót­mæla brott­vísun fjöl­skyldunnar

Sylvía Hall skrifar
Fjölskyldan á sér þá ósk heitasta að geta búið áfram á Íslandi eins og undanfarin sjö ár. Bassirou Ndiaye með Reginu Mörthu Ndiaye og Mahe Diouf með Elodie Mariu Ndiaye.
Fjölskyldan á sér þá ósk heitasta að geta búið áfram á Íslandi eins og undanfarin sjö ár. Bassirou Ndiaye með Reginu Mörthu Ndiaye og Mahe Diouf með Elodie Mariu Ndiaye. Vísir/Sigurjón

Rúmlega tólf þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar þar sem krafist er að fjölskyldu frá Senegal verði ekki vísað úr landi. Fjölskyldan hefur búið hér í tæp sjö ár.

Tvær dætur fjölskyldunnar, þær Regine Martha og Elodie Marie, eru báðar fæddar hér á landi. Sú eldri er sex ára og gengur í Vogaskóla en sú yngri er þriggja ára og í leikskóla.

„Þær eru 3 og 6 ára og eru fæddar hér og þekkja ekki neitt annað. Það myndi valda þeim óbærilegum skaða að rífa þær upp úr sínu umhverfi og senda til ókunnugs lands þar sem þeim er hætta búin. Nú verður að skora á stjórnvöld að veita þeim dvalarleyfi á Íslandi. Það verður að brýna stjórnvöld til að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi við slíkar ákvarðanir,“ segir í undirskriftasöfnuninni.

Fjölskyldan hefur án árangurs barist fyrir því í sex ár að fá dvalarleyfi hér á grundvelli mannúðarsjónarmiða, óskað eftir alþjóðlegri vernd eða dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið.

Elín Árnadóttir, lögmaður fjölskyldunnar hefur farið fram á enn eina endurupptöku málsins hjá kærunefnd útlendingamála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×