Félagarnir úr 1969 árganginum fræga í KR, Heimir Guðjónsson og Rúnar Kristinsson, hafa unnið níu af síðustu þrettán Íslandsmeistaratitlum í karlaflokki í fótbolta.
Knattspyrnusamband Íslands ákvað á föstudaginn að flauta Íslandsmótið af. Því var ljóst að Valur var orðinn Íslandsmeistari á fyrsta tímabili sínu undir stjórn Heimis.
Þetta var sjötti Íslandsmeistaratitill Heimis sem þjálfara. Undir hans stjórn varð FH fimm sinnum Íslandsmeistari (2008, 2009, 2012, 2015 og 2016) og hann gerði Val svo að meisturum í fyrstu tilraun.

Íslandsmeistarabikarinn flytur því lögheimili sitt úr Vesturbænum á Hlíðarenda en Rúnar gerði KR að meisturum í fyrra. Það var þriðji Íslandsmeistaratitill hans sem þjálfara en hann gerði KR einnig að meisturum 2011 og 2013.
Samtals hafa þeir Heimir og Rúnar því unnið Íslandsmeistaratitilinn samtals níu sinnum síðan 2008. Á þessu tímabili vann Ólafur Jóhannesson tvo Íslandsmeistaratitla með Val, nafni hans, Kristjánsson, einn með Breiðabliki og Rúnar Páll Sigmundsson einn með Stjörnunni. Annars hafa vinirnir úr '69 árganginum í KR einokað Íslandsmeistaratitilinn undanfarin þrettán ár.
Föstudagurinn var ekki jafn góður fyrir Val og KR. Vesturbæingar enduðu í 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar og komust þar af leiðandi ekki í forkeppni Evrópudeildarinnar á næsta ári. Þeir áttu einnig möguleika á að ná Evrópusæti í gegnum bikarkeppnina, þar sem þeir áttu að mæta Valsmönnum í undanúrslitum, en hún var líka flautuð af. KR-ingar hafa ákveðið að áfrýja ákvörðun KSÍ að hætta keppni á Íslandsmótinu til áfrýjunardómstóls sambandsins.

Rúnar og Heimir unnu sitt hvorn leikinn gegn hvor öðrum í sumar. KR vann á Hlíðarenda, 0-1, en Valur náði fram hefndum með 4-5 sigri í miklum markaleik á Meistaravöllum. Lið þeirra hafa mæst ellefu sinnum í efstu deild. Rúnar hefur unnið sex leiki, Heimir fjóra og einu sinni hefur orðið jafntefli. Heimir hrósaði svo sigri þegar FH vann stórsigur á KR, 4-0, í bikarúrslitaleiknum 2010.
Heimir og Rúnar spiluðu saman upp alla yngri flokkana í KR og síðan í meistaraflokki allt þar til Rúnar hélt í atvinnumennsku 1995. Þeir urðu bikarmeistarar með KR 1994 en náðu aldrei að vinna Íslandsmeistaratitilinn saman. Heimir varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari sem fyrirliði FH (2004 og 2005) en Rúnar varð aldrei Íslandsmeistari sem leikmaður.
Sem þjálfarar hafa þeir unnið samtals níu Íslandsmeistaratitla og fjóra bikarmeistaratitla. Þá vann Heimir bæði deild og bikar sem þjálfari HB í Færeyjum.
Meðal annarra þekktra kappa úr '69 árganginum í KR má nefna Hilmar Björnsson og Þormóð Egilsson sem var fyrirliði KR-inga þegar þeir urðu Íslandsmeistarar 1999, 2000 og 2002.