Landsliðskonan Sif Atladóttir fagnaði frábærum árangri Kristianstad um helgina en liðið tryggði sér þá sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.
Sif Atladóttir verður vonandi með Kristianstad í Meistaradeildinni á næsta ári en hún er nýbúin að fjölga heiminum og missti því af þessu sögulega tímabili hjá liði sínu. Sif ætlar sér hins vegar að koma aftur á næsta tímabili og þá mun liðið spila á stærsta sviðinu.
Sif fagnaði frábærum árangri liðsfélaga sína í færslu á Instagram síðu sinni en Kristianstad tryggði sér þriðja sætið í sænsku deildinni og sæti í Meistaradeildinni með því að vinna 4-1 sigur á Uppsala í gær.
„Fyrir tíu árum þá sagði Beta að hana dreymdi um að fara með þetta lið í Meistaradeildina. Hana dreymdi um að litla Kristianstad myndi spila á stóra sviðinu. Fólk hefur efast og hlegið að okkur fyrir að láta okkur dreyma og trúa á þetta,“ skrifaði Sif á ensku á Instagram síðu sína eins og sjá má hér fyrir neðan.
„Það eru aðeins fjögur ár síðan að við urðum næstum því gjaldþrota, en við björguðum okkur á síðustu mínútunum bæði innan og utan vallar. Fyrir tveimur árum þá unnum við okkar fyrsta verðlaunapening. Fyrir einu ári þá spiluðum við bikarúrslitaleik, töpuðum en lærðum heilmikið á því,“ skrifaði Sif og hélt áfram.
„Svo núna, tíu árum, tveimur börnum og fullt af tilfinningum síðar þá tókst okkur þetta,“ skrifaði Sif.
„Ferðalagið okkar hefur boðið upp á mikið og vinnan heldur áfram. Einn leikur eftir af 2020 tímabilinu og við getum þar haldið áfram að skrifa söguna okkar,“ skrifaði Sif.
Sif Atladóttir hefur spilað með Kristianstad frá árinu 2011 en hún hélt upp á 35 ára afmælið sitt í sumar. Elísabet Gunnarsdóttir hefur þjálfað liðið frá 2009 en þær unnu áður saman hjá Val.'
Hér fyrir ofan má sjá alla færsluna frá Sif.