Ólafur Guðmundsson lék á alls oddi í liði Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta er liðið tapaði fyrir Skövde á heimavelli í sænska boltanum í dag.
Skövde var 12-9 yfir í hálfleik en Kristianstad minnkaði muninn í eitt mark undir lokin. Nær komust þeir þó ekki og lokatölur því 30-29 sigur Skövde.
Skövde er því komið upp í annað sætið á kostnað Kristianstad sem er í því þriðja.
Ólafur var markahæsti leikmaður Kristianstad með átta mörk en Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark fyrir margföldu meistarana í Svíþjóð.
Aron Dagur Pálsson skoraði fjögur mörk er Alingsås tapaði fyrir Varberg í sömu deild. Lokatölur urðu 30-28 eftir að Alingsås hafi verið 15-13 yfir í hálfleik en liðið er í 5. sæti deildarinnar.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði sex skot, eða var með tæplega tuttugu prósent markvörslu, er GOG vann 28-26 sigur á Lemvig-Thyborøn í Danmörku. GOG er á toppnum í Danmörku.