Að mati Katrínar hafi verið reynt til þrautar að ná saman við samningaborðið en það hafi ekki tekist. Það hafi verið ljóst þegar flugvirkjar höfnuðu innanhússtillögu ríkissáttasemjara í gærkvöldi að ekki yrði lengra komist að svo stöddu.
Flugvirkjar höfnuðu sáttatillögu ríkissáttasemjara í gær sem fól í sér að núgildandi kjarasamningur flugvirkja yrði framlengdur til 31. desember 2021, til loka næsta árs.
„Síðan er það hitt sjónarmiðið, sem réttlætir þessa lagasetningu, og það er í raun sú staða sem uppi er gagnvart öryggi sjófarenda og ferðalanga á landi með þyrlur Landhelgisgæslunnar lamaðar vegna vinnudeilu.“
Katrín segir aldrei ánægjulegt að þurfa að setja lög á verkföll. Hún hafi þó áður tekið þátt í slíkri lagasetningu og miðað við stöðu mála nú hafi ekkert annað verið í boði.
„Það er auðvitað þannig að stundum eru bara engin önnur úrræði í stöðunni. Ég tel að þessi deila hafi verið á þeim stað, og hún hafi það alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir öryggi almennings, að það réttlæti þetta.“
Stefnt er að því að klára umræður um frumvarpið á Alþingi í kvöld, en það er nú til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd.