„Ég held það sé kannski ekki í spilunum frá mér að fara að herða eins og staðan er núna. Ég held þetta sé aðallega spurning um það hvort við verðum með óbreytt ástand eða ekki,“ sagði Þórólfur í Víglínunni í dag.
Hann segir tölur dagsins hafa verið betri en þær sem hafa verið síðustu daga, en í gær greindust tíu með veiruna og voru átta þeirra í sóttkví. Þó þurfi að fara varlega í að túlka sveiflur milli daga; færri smit greinist um helgar og tölurnar líklega marktækari næstu daga.
Staðan geti þó breyst hratt.
„Við erum á viðkvæmum punkti og það er einmitt það sem við höfum verið að reyna að predika og tala um undanfarið.“
Voru farin að huga að tilslökunum
Þórólfur hafði skilað tillögum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra áður en smitum fór að fjölga aftur. Hann hafði hugsað sér að leggja til einhverjar tilslakanir frá og með 2. desember þegar ný reglugerð tekur við, en þær hafi þó ekki verið verulegar.
„Ég hef sagt það, og stend enn við það, að við þurfum að fara mjög hægt núna til að fá ekki afturkipp í þetta allt saman. Án þess að ég vilji fara út í einstaka þætti minna tillagna, þá held ég að það sé það sem við þurfum að endurskoða. Sérstaklega ef faraldurinn er að fara svona í öfuga átt ef eitthvað er.“
Hann segir vinnu við nýtt minnisblað vera hafna í samráði við ráðherra og fleiri. Verið sé að meta hvað sé skynsamlegt að gera í ljósi stöðunnar, en tilslakanir væru þó ekki rökrétt leið á þessum tímapunkti – og þá sérstaklega ekki svo stuttu fyrir jól.
„Ég held að það væri mjög óskynsamlegt að fara út í einhverjar miklar tilslakanir á þessum tímapunkti. Það gæti þýtt það að við fengjum afturkipp í þetta og værum að berjast við faraldurinn akkúrat um jólin.“

Spurning um óbreytt ástand eða ekki
„Ég held það sé kannski ekki í spilunum frá mér að fara að herða eins og staðan er núna. Ég held þetta sé aðallega spurning um það hvort við verðum með óbreytt ástand eða ekki,“ segir Þórólfur aðspurður hvað taki við þann 2. desember.
Erfitt sé að segja hvað verði fyrr en tillögur hans eru fullmótaðar, en til greina kemur að breyta lengd gildistíma reglugerðarinnar. Hann hefur sjálfur viðrað þær hugmyndir að láta þær gilda til skemmri tíma svo hægt sé að grípa inn í ef staðan breytist, en einhverjir hafa kallað eftir meiri fyrirsjáanleika í aðgerðum.
„Það yrðu margir óánægðir ef við færum að gefa út reglugerð eða tilmæli sem myndi gilda mjög lengi og svo væri því bara breytt eftir eina til tvær vikur.“
Hann segist ekkert geta sagt til um hvort tilslakanir verði fyrir jólin, en það væri þó óskandi.
„Ég er aðallega að hugsa um 2. desember. Ég hugsa ekki mikið lengra. Auðvitað vonast maður til að það verði ráðrúm til þess að geta aðeins slakað á, það er það sem við höfum verið að gera allan tímann.“