Fótbolti

Ísak tilefndur sem besti ungi leikmaðurinn í Svíþjóð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með U-21 árs landsliðinu.
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með U-21 árs landsliðinu. vísir/vilhelm

Ísak Bergmann Jóhannesson, leikmaður Norrköping, er tilnefndur sem besti ungi leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Keppni í sænsku úrvalsdeildinni í lauk í gær en Ísak og félagar í Norrköping lutu þá í lægra haldi fyrir Helsingborg, 3-4. Ísak lagði upp fyrsta mark Norrköping en það var níunda stoðsending hans á tímabilinu. Hann skoraði einnig þrjú mörk.

Aðeins tveir leikmenn gáfu fleiri stoðsendingar í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu en Ísak. Þeir Gustav Ludwigson hjá Hammarby og samherji Ísaks hjá Norrköping, Sead Haksabanovic, lögðu báðir upp ellefu mörk.

Auk Ísaks eru þeir Anel Ahmedhodzic (Malmö) og Astrit Selmani (Varberg) tilnefndir sem besti ungi leikmaður tímabilsins. Þeir eru báðir talsvert eldri en Ísak sem er aðeins sautján ára. Selmani er 23 ára og Ahmedhodzic 21 árs.

Ísak hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Norrköping og verið orðaður við ýmis stórlið í Evrópu. Hann hjálpaði íslenska U-21 árs landsliðinu að komast á EM 2021 og lék sinn fyrsta leik fyrir A-landsliðið gegn Englandi í síðasta mánuði.

Ísak lék 28 af 30 leikjum Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili, þar af 25 í byrjunarliði. Norrköping endaði í 6. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×