Erlent

Kórónuveiran, WAP og Tom Hanks toppa vinsældalista Google

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir vildu glöggva sig betur á textanum við dónalagið WAP.
Margir vildu glöggva sig betur á textanum við dónalagið WAP.

Kórónuveiran trónir á toppi Google yfir þau orð sem mest var leitað að árið 2020 en í öðru sæti voru „kosningaúrslit“, Kobe Bryant, Zoom og IPL, sem skilar niðurstöðum um indversku úrvalsdeildina í krikket.

Um er að ræða leitarniðurstöður á heimsvísu.

Kórónuveiran toppar einnig listann yfir flestar fréttatengdar leitir en þar á eftir koma „kosningaúrslit“, Íran, Beirút og Hantavírus. Allt á ensku, eins og gefur að skilja.

Tom Hanks, Joaquin Phoenix, Amitabh Bachchan, Ricky Gervais og Jada Pinkett Smith voru þeir leikarar sem fólk var hvað forvitnast um en vinsælustu myndirnar sem fólk fletti upp voru Parasite, 1917, Black Panther, 365 Dni og Contagion.

Þá reyndust margir áhugasamir um textann við dónalagið WAP, Netflix-þættina um Tígrisdýrakónginn og uppskriftir að hinu sykursæta dalgona kaffi, ekmek brauðbúðing og súrdeigsbrauði.

Eins og sjá má hér að ofan setti kórónuveirufaraldurinn svip sinn sinn á vefheima eins og raunheima en „svefnleysi“ átti metár og „hvernig á að rækta grænmetisgarð“ var slegið inn tvisvar sinnum oftar árið 2020 en 2019.

„Black Lives Matter“ náði einnig útbreiðslu á heimsvísu og í júní vildu fleiri vita hvernig þeir gætu tamið sér and-rasískan hugsunarhátt en vildu verða milljónamæringar. Þá var oftar leitað að „hvernig verð ég bandamaður“ en „hvernig verð ég áhrifavaldur“.

Mörgum var einnig umhugað um hamfarahlýnun og árið 2020 leituðu fleiri að „hvernig stöðvum við loftslagsbreytingar“ en nokkru sinni áður. Þá virtist forritun vera það sem fólk vildi helst aðstoð Google við að læra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×