Spænska meistaraliðið Real Madrid vann mikilvægan sigur á nágrönnum sínum í Atlético Madrid í stórleik helgarinnar í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Brasilíski miðjumaðurinn Casemiro kom Real Madrid yfir strax á fimmtándu mínútu og leiddu heimamenn því í leikhléi.
Real tókst að tvöfalda forystuna eftir rúmlega klukkutíma leik þegar þrumufleygur Dani Carvajal hafnaði í netinu en boltinn fór í Jan Oblak og inn og var markið skráð sem sjálfsmark markvarðarins.
Ekki urðu mörkin fleiri. Lokatölur 2-0 fyrir Real Madrid og fyrsta tap Atlético á leiktíðinni staðreynd.
Atlético eftir sem áður á toppi deildarinnar þar sem liðið hefur eins stigs forystu á Real Sociedad ásamt því að eiga einn leik til góða.

Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.