Innlent

Á­hyggju­fullur yfir smærri hópa­myndunum um jólin

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist áhyggjufullur yfir hópamyndunum yfir hátíðarnar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist áhyggjufullur yfir hópamyndunum yfir hátíðarnar. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir segist áhyggjufullur yfir því að fólk safnist saman í mörgum litlum hópum yfir hátíðarnar. Enn sé mikil hætta á því að kórónuveiran dreifist manna á milli og segir hann ekki þurfa nema einn einstakling sem fer í marga litla hópa til þess að eitt stórt hópsmit blasi við okkur.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ræddi málin í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag og sagðist hann meðal annars hafa mikinn skilning á því að landsmenn séu svekktir yfir seinkun bólusetningar hér á landi. Þórólfur greindi frá því á fundi almannavarna í dag að hann telji að ekki náist gott hjarðónæmi hér á landi fyrr en á seinni hluta næsta árs.

„Ég skil það mjög vel. Við viljum öll losna út úr þessu og fyrstu fréttirnar sem við fengum af dreifingaráætlun frá Evrópusambandinu um þetta Pfizer bóluefni voru mjög upplífgandi og samkvæmt því hefðum við átt að geta bólusett mjög marga strax í byrjun, þannig að það hefði verið mjög fínt. Síðan kemur þetta framleiðsluvandamál sem að setur allt úr lagi og við fáum þetta miklu hægar og minna heldur en áætlað var,“ sagði Þórólfur.

Upprunaleg áætlun var að hægt væri að bólusetja 85 þúsund manns með bóluefni frá Pfizer en einnig hefur verið gerður samningur við AstraZeneca fyrir bólusetningu 115 þúsund einstaklinga. Óljóst er hvenær það bóluefni verður tilbúið til notkunar en það er ekki enn komið með markaðsleyfi í Evrópu.

„Það verður vonandi tekið fyrir núna í janúar. Allt tekur þetta einhvern tíma og svo hefur AstraZeneca gefið út dreifingaráætlun um sína áherslupunkta í dreifingunni. Mitt mat á því er að það muni ekki gerast mjög hratt. Svo eru aðrir framleiðendur sem eru skemmra komnir,“ segir Þórólfur.

„Við vitum náttúrulega ekki hvernig planið verður frá og með mars á næsta ári. Við erum ekki búin að fá áætlun um það en við vitum fram til mars, samkvæmt áætlun Pfizer, þá munum við fá bóluefni fyrir um þrettán þúsund manns, eitthvað svoleiðis. Það er töluvert minna en við héldum,“ segir Þórólfur.

Þórólfur segist sérstaklega áhyggjufullur um hópamyndanir yfir hátíðarnar.

„Þó að tölurnar sem við erum að sjá í greiningum á hverjum degi þá erum við bara að fara inn í þannig tíma að það getur ýmislegt gerst. Fólk er að fara í veislur og hittast og það getur alveg orðið uppsveifla í faraldrinum bara út af því. Það er aðallega af þeim ástæðum sem ég hef mælst til þess, eða lagt til við ráðherra, að við höldum þessu svona fram yfir áramót eins og núverandi reglugerð segir til um,“ segir Þórólfur.

„Þetta er allt undir okkur sjálfum komið sem einstaklingum, þetta er ekki spurningin um hvað við erum að fyrirskipa eða leiðbeina með eða reglur sem við erum að setja. Það er hvernig fólkið fer eftir því, það er númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Þórólfur.

„Ég óttast mest að fólk fari í hópa og ef þeir fari ekki í stóra hópa þá fari þeir í marga litla hópa og þar á milli. Það þarf ekki nema einn einstakling til að fara í marga hópa og þá erum við komin með eitt stórt hópsmit.“

Hann segir að hugað verði að því að slaka á aðgerðum eftir áramót ef allt gengur vel. Ekki sé hægt að viðhalda ströngum sóttvarnaaðgerðum næstu mánuði. Hann segir að það myndi vera mjög erfitt nema sérstök ástæða sé til aðgerðanna.

Þórólfur segir að þegar búið verður að bólusetja viðkvæmustu hópana verði hægt að fara að slaka á sóttvarnaaðgerðum.

„En ég bendi aftur á að við erum ekki endilega laus út úr þessu þá. Það eru fleiri en þessir elstu einstaklingar og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma sem geta fengið Covid alvarlega þannig að þetta er ekki búið þó búið sé að bólusetja þá og vernda þá,“ segir Þórólfur.

„Þetta er langvarandi mál og ef við ætlum að ná hjarðónæmi, sem við erum alltaf að tala um og sem þýðir að við þurfum að ná að bólusetja að minnsta kosti sextíu prósent af þjóðinni. Það þýðir að þá fáum við ekki stóra útbreidda faraldra en við getum áfram fengið einhverjar svona litlar hópsýkingar.“


Tengdar fréttir

Þórólfur í sóttkví vegna smits hjá embætti landlæknis

Þrír starfsmenn á sóttvarnasviði embættis landlæknis eru komnir í sóttkví. Það er eftir að Covid-19 smit greindist á vinnustaðnum. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, er meðal þeirra sem er í sóttkví.

Ekkert í hendi nema skammtarnir frá Pfizer

Sóttvarnalæknir telur ekki misræmi í þeirri stöðu á bólusetningum gegn kórónuveirunni sem hann lýsti í dag og nýjustu upplýsingum um bóluefni frá ráðuneytinu. Ekkert sé í hendi nema að fram til mars 2021 fáum við bóluefni frá Pfizer fyrir 13 þúsund manns.

Mun minna bólu­efni til Ís­lands á næstunni en búist var við

Sóttvarnalæknir telur að ekki náist gott hjarðónæmi hér á landi fyrr en á seinni hluta næsta árs. Áfram verði kórónuveiruaðgerðir í gildi þar til mitt ár 2021 hið minnsta. Vonast hefði verið til að geta ráðist í umfangsmeiri bólusetningar eftir áramót en raunin verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×