Fótbolti

Verði Ísak áfram hjá Norrköping fær hann nýjan þjálfara

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhanesson.
Ísak Bergmann Jóhanesson. vísir/getty

Sænska úrvalsdeildarfélagið Norrköping hefur ákveðið að endurnýja ekki samning við Jens Gustafsson sem stýrt hefur liðinu undanfarin fimm ár.

Félagið gaf út yfirlýsingu þess efnis í gær en mótinu í Svíþjóð lauk á dögunum og hafnaði Norrköping í 6.sæti deildarinnar. Í yfirlýsingunni segir að um sameiginlega ákvörðun hafi verið að ræða.

Íslenska ungstirnið Ísak Bergmann Jóhanesson er á mála hjá Norrköping og fékk stórt hlutverk undir stjórn Gustafsson á nýafstaðinni leiktíð.

Ísak tók fast utan um það hlutverk og þótti einn besti leikmaður deildarinnar. Framganga hans á tímabilinu er talin líkleg til að gera það að verkum að hann muni ekki spila fleiri leiki fyrir Norrköping en Ísak hefur undanfarnar vikur verið orðaður við nokkur af stærstu félögum Evrópu.

Fjölmargir Íslendingar hafa leikið fyrir Norrköping í gegnum tíðina, þá sérstaklega á undanförnum árum. Þeirra á meðal er Arnór Sigurðsson, sem á það sameiginlegt með Ísaki að hafa slegið í gegn með liðinu undir stjórn Gustafsson og var Arnór í kjölfarið seldur til rússneska stórliðsins CSKA Moskva.


Tengdar fréttir

Geggjað að drauma­fé­lagið sé að fylgjast með

Ísak Bergmann Jóhannesson segist lítið vera að velta sér upp úr framtíð sinni. Hann segir þó að það sé ánægjulegt að vita að draumafélag hans, Manchester United, sé að fylgjast með gangi mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×