Það besta sem við gerum fyrir okkur sjálf og fyrir vinnuveitendur er að ná góðri hvíld í fríum. Þannig mætum við endurnærð og ánægð aftur til vinnu eftir jól.
Hér eru nokkur atriði sem mælt er með að fólk hafi í huga til að afstressa sig alveg frá vinnu yfir jólin og njóta frísins sem framundan er.
1. Tölvupósturinn: „Out of office“
Þótt flestir séu í fríi yfir hátíðirnar og lítið um tölvupóstsendingar, er samt ágætt að stilla tölvupóstinn á „Out of office.“ Þú slakar á og tilfinningin um að þú „verðir“ að kíkja á tölvupóstinn verður ekki eins sterk. Ef einhver sendir þér tölvupóst tryggir Out of office tilkynningin það líka að ekki er hægt að búast við að þú svarir erindinu fyrr en þú mætir aftur til vinnu.
2. Verkaskiptingin heima fyrir
Ef þú vilt fá sem mest út úr fríinu skiptir líka máli að þú upplifir ekki jólahaldið sem streituvaldandi kvöð. Að elda, þrífa, pakka inn jólagjöfum og svo framvegis getur fyrir suma verið yfirþyrmandi. Því er um að gera að ræða það fyrirfram með hvaða hætti er hægt að skipta með sér verkum heima fyrir, eða jafnvel breyta einhverju, þannig að jólin verði það frí sem þú vilt njóta.
3. Engin vekjaraklukka
Ef það eru einhverjir sem ekki afstilla vekjaraklukku um jólin, þá er um að gera að benda á það hér: Ekki láta vekjaraklukkuna hringja.
4. Ekki byrja á því að kíkja á símann á morgnana
Eitt af því sem fær okkur til að slaka betur á í fríi er að byrja ekki á því að kíkja á símann, tölvupóstinn, samfélagsmiðla eða fréttir um leið og við vöknum.
Þetta getur verið stór áskorun fyrir marga og því er mælt með því að síminn sé ekki á náttborðinu yfir nóttina.
5. Hreyfing og útivist
Góð leið til að njóta augnabliksins er að fara aðeins út. Góður göngutúr eða einhvers konar útivist. Hressir og kætir.
6. Morgunmatur
Það kannast margir við það að vera á svo miklum hlaupum á morgnana að morgunmaturinn verður út undan. Að koma krökkum í skólann, gera sjálfan sig til fyrir vinnuna og mæta á réttum tíma er í forgangi. Njóttu þess að svo er ekki þegar þú ert í fríi og taktu þér tíma í að borða morgunmat, vitandi það að þú þarft ekkert að stressa þig á neinu.
7. Fjölskyldutími
Loks er það atriðið sem jólin í rauninni snúast um: Samveran með fjölskyldunni. Þótt takmarkanir séu á fjölda þeirra sem mega koma saman þessi jól, breytir það engu um mikilvægi þess að njóta stundanna með fjölskyldunni á meðan þú ert í fríi. Það er svo ótal margt sem hægt er að gera saman. Börn og fullorðnir.