Reuters greinir frá og hefur eftir aðstoðarframkvæmdastjóranum Noel Wathion að AstroZeneca hafi enn ekki sent inn umsókn til stofnunarinnar vegna bóluefnisins, sem oftar en ekki er nefnt Oxford-bóluefnið.
Wathion segir að stofnunin hafi fengið ákveðnar upplýsingar um bóluefnið en þörf sé á frekari upplýsingum, auk þess sem að AstraZeneca þurfi að sækja formlega um að fá markaðsleyfi, sem hafi enn ekki verið gert.
Þetta geri það að verkum að ólíklegt sé að hægt verði að afgreiða slíka umsókn í janúar.
Búist er við því að bresk yfirvöld samþykki notkun bóluefnisins á næstu dögum, svo hefja megi notkun þess þar í landi.
Rannsóknir á virkni bóluefnisins gefa til kynna að það veiti allt að 90 prósent vernd gegn Covid-19.
Samningar sem Ísland er aðili að gera ráð fyrir að hingað til lands berist 230 þúsund skammtar af bóluefni AstraZeneca, sem eiga að duga fyrir 115 þúsund einstaklinga. Á vef stjórnarráðsins segir að fyrirtækið geri ráð fyrir að afhenda skammta í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.