Karla- og kvennalandslið Íslands eiga að leika á Laugardalsvelli á sama degi, 4. júní næstkomandi.
Búið er að færa leik Íslands og Rúmeníu í umspili um sæti á EM karla til 4. júní. Leikurinn átti að fara fram 26. mars en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.
Sama dag, 4. júní, á Ísland að mæta Lettlandi í undankeppni EM kvenna. Fimm dögum síðar tekur Ísland á móti Svíþjóð í sömu keppni.
Ef karlalandsliðið vinnur Rúmeníu mætir það annað hvort Búlgaríu eða Ungverjalandi ytra 9. júní í hreinum úrslitaleik um sæti á EM.
Búið er að færa EM karla fram á næsta ár. EM kvenna átti að fara fram í Englandi það ár en svo gæti farið að því yrði frestað til 2022.