Róbert Daði Sigurþórsson, nýkrýndur Íslandsmeistari í eFótbolta, mun keppa fyrir Íslands hönd í eFótbolta á þriðjudaginn. Hann verður þó ekki einn á ferð en Birkir Már Sævarsson, hægri bakvörður íslenska landsliðsins undanfarin ár og leikmaður Vals mun keppa með Róberti.
Júlíana Þóra Hálfdánardóttir ræddi við Róbert Daða í Sportpakka Stöðvar 2 í kvöld. Viðtalið má sjá í heild sinni hérna að neðan.
Í gær fóru fram úrslit í Íslandsmótinu í tölvuleiknum FIFA20. Þar stóð Róbert Daði uppi sem sigurvegari eftir samtals 4-2 sigur á liðsfélaga sínum Aroni Þormari Lárussyni. Róbert var meðal annars spurður út í tilfinninguna að hafa landað sigri á Aroni sem var fyrir leikinn efstu Íslendinga á heimslista FIFA.
„Hausinn á mér var bara að springa,“ sagði Róbert einfaldlega og hann á sér háleit markmið en rafíþróttir njóta sífellt meiri vinsælda um heim allan.
„Komast í erlendar keppnir, vera þekkt nafn og halda sætinu í landsliðinu í FIFA,“ sagði Róbert að lokum en innslagið í heild sinni má sjá hér að neðan.