Icelandair Hótels og Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samkomulag þess efnis að aðstaða á Hótel Reykjavík Natura verði nýtt sem gistirými fyrir skilgreinda lykilstarfsmenn í heilbrigðiskerfinu og hjá Almannavörnum ef þeir geta ekki dvalið heima hjá sér vegna hættu á kórónuveirusmiti.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkratryggingum Íslands en þar segir enn fremur að í kjölfar verðfyrirspurnar hafi verið ákveðið að þiggja boð Icelandair Hótels sem buðu yfirvöldum afnotin endurgjaldslaust.
Í tilkynningunni segir að yfirvöld séu þakklát þessu einstaka framtaki Icelandair Hótels og koma jafnframt á framfæri þakklæti til þeirra hótela sem leitar var til. Skjót og höfðingleg tilboð sýni þann kraft og samtakamátt sem býr í íslensku samfélagi á erfiðum tímum.
Þeir starfsmenn sem geta fengið gistipláss á hótelinu eru þeir sem gegna sérstakri ábyrgð samkvæmt neyðaráætlun heilbrigðiskerfisins og innan stjórnstöðvar Almannavarna eða búa yfir sérstakri þekkingu eða færni sem er nauðsynleg við framkvæmd neyðaráætlunarinnar.