Þýskur fréttamaður hefur verið á Íslandi síðustu daga vegna heimildamyndargerðar um kórónuveirusmitin á skíðasvæðinu í Ischgl í Austurríki.
Christof Lang, fréttamaður hjá Infonetwork RTL í Þýskalandi, tók viðtöl í vikunni við sóttvarnalækni, Kára Stefánsson og Íslending sem greindist með kórónuveiruna eftir að hafa verið á skíðum í Ischgl.
Fyrstu viðvaranir um smit í bænum komu frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum eftir að veiran uppgötvaðist í Íslendingum sem höfðu verið í fríi í bænum. Þannig var Ísland fyrst til að skilgreina bæinn sem áhættusvæði.
Ísland gerði allt rétt
„Ísland gerði allt rétt,“ segir Christof. „Viðvaranir komu tímanlega en það sem er áhugavert við þetta er af hverju enginn veitti þeim athygli. Annað sem er áhugavert við Ísland er hvernig hefur verið tekist á við kórónuveiruna. Það er ansi aðdáunarvert.“
Sjá einnig: Djammstaðurinn Ischgl sem sýkti hálfa Evrópu
Christof fór sjálfur á skíði til Ischgl, einum degi eftir að viðvörun kom frá Íslandi en hann vissi ekki af því, frekar en aðrir ferðalangar.
„Konan mín er ólétt og hún sagði við mig að ég væri ekkert að fara á svæðið ef þar væri veira. En ég sagði bara nei, það er engin smithætta þarna, ég er búinn að kanna það. En raunin er að fólk var að smitast á svæðinu dagana áður en ég kom og ég ásamt fimm félögum mínum smituðumst allir. Þess vegna er ég að gera þessa heimildarmynd, af því að þetta snertir mig persónulega.“
Christof segir hæg viðbrögð í bænum tengjast gífurlegum fjárhagslegum hagsmunum enda velti skíðasvæðið 300 milljónum evra á hverjum vetri.
„Þetta var bara eins og alltaf. Ekkert verið að ræða veiruna, engar viðvaranir, engar fjarlægðir milli manna. Enginn leiddi hugann að veirunni og ég gerði það ekki sjálfur, því ég hélt ég væri alveg öruggur á þessu svæði.“
Christof fór héðan af landi á fimmtudag og var á leiðinni til Ischgl þar sem hann ætlar að ræða við hótel- og bareigendur og fólkið sem starfar á svæðinu.