Boxarinn magnaði, Oscar De La Hoya, segir að hann myndi afgreiða UFC-stjörnuna Conor McGregor ef þeir myndu mætast í boxhringnum í dag. De La Hoya barðist síðast í desember árið 2008 og hætti í apríl 2009.
De La Hoya hafði betur í 39 af 45 bardögunum sem hann barðist í og varð sex sinnum heimsmeistari í veltivigt. Þrátt fyrir að vera orðinn 47 ára gamall segir hann að hann myndi afgreiða McGregor, sem er sextán árum yngri.
„Þetta færi í tvær lotur. Því það var einn hlutur varðandi mig; ég sótti alltaf eftir dauðahögginu,“ sagði De La Haya við hlaðvarpið State of Combet þegar hann var spurður út í það hvernig bardagi þeirra myndi fara.
„Og líttu á Conor; ég elska hann í hringnum, ber virðingu fyrir honum og ég horfi alltaf á hann en að berjast í boxi er allt annað. Þetta er allt önnur saga.“
McGregor hefur áður barist í boxhringnum en hann barðist gegn Floyd Mayweather í ágúst 2017. Eftir þann bardaga lét De La Hoya þá heyra það og sagði að þeir væru vanvirðing við sjálfa íþróttina.
Oscar De La Hoya confident he could beat Conor McGregor in two rounds if they boxed https://t.co/CTRQj17rLk
— MailOnline Sport (@MailSport) May 5, 2020