Frá þessu segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar segir að á morgun hvessi dálítið úr norðvestri á morgun, fimm til þrettán metrar á sekúndu, en þurrt og bjart veður mest alls staðar, en lítilsháttar él fyrir norðan.
Það kólnar um mest allt land þar sem frost verður á bilinu tvö til átta stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Norðvestan 5-13 m/s með þurru og björtu veðri, en lítilsháttar él á norðanverðu landinu. Frost 2 til 8 stig síðdegis.
Á fimmtudag: Suðvestan 3-8 framan af degi, víða léttskýjað og frost 3 til 13 stig, kaldast inn til landsins. Bætir í vind vestantil á landinu síðdegis, þykknar upp þar með snjókomu og síðar rigningu og hlýnandi veðri.
Á föstudag: Hvöss suðvestanátt með rigningu og hita 2 til 7 stig. Snjókoma eða slydda seinnipartinn og ört kólnandi veður. Úrkomulítið á Norðausturlandi og Austfjörðum.
Á laugardag: Stíf norðvestanátt. Snjókoma á norðanverðu landinu, él suðvestantil, en þurrt að kalla á Suðausturlandi og Austfjörðum. Frost 3 til 10 stig.
Á sunnudag: Norðvestlæg átt með éljum á norðanverðu landinu, en léttskýjað sunnan heiða. Áfram kalt í veðri.
Á mánudag: Útlit fyrir norðlægar áttir með dálítilli snjókomu eða éljum fyrir norðan en þurrt og bjart sunnan heiða. Áfram frost um allt land.