Kortavelta var nokkuð mikil í nóvember þrátt fyrir sóttvarnaraðgerðir og fjöldatakmarkanir í verslunum. Aukningin milli ára miðast við fast verðlag. Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur birt gögn um kortaveltu innlendra verslana í nóvember og er fjallað um tölurnar í Hagsjá Landsbankans.
Heilt yfir mældist í nóvember alls 24% aukning í kortaveltu í verslunum frá árinu 2019 miðað við fast verðlag. Skýrir netverslun 16 prósentustig aukningarinnar.
Netverslun skýri heildaraukningu
17% af allri kortaveltu í verslunum í nóvember fór fram í gegnum netið, sem er mikil aukning miðað við fyrri mánuði og skýrir verulegan hluta aukningarinnar í verslun í nóvember, að sögn Hagfræðideildar Landsbankans.
Í raf- og heimilistækjaverslunum hefur netverslun verið mikil, bæði sem hlutfall af heildarveltu þar, en einnig sem hlutfall af allri netverslun. Í nóvember nam kortavelta raf- og heimilistækjaverslana í gegnum netið 1,6 milljörðum króna, sem er 18% af samanlagðri kortaveltu netverslana, og 41% af kortaveltu landsmanna í raf- og heimilistækjaverslunum í nóvember líkt og áður segir.
Svartur föstudagur spilar inn í
Svipað hlutfall kortaveltunnar í verslunum með heimilisbúnað fór fram í gegnum netið í nóvember, eða 40%. Í fataverslunum var hlutfall kortaveltu í netverslunum 27% og 6% í stórmörkuðum og dagvöruverslunum. Alls staðar hafði hlutfallið í nóvember aukist miðað við fyrri mánuði.
Sífellt fyrirferðameiri afsláttardagar á borð við Svartan föstudag, Netmánudag og Dag einhleypra sem fara fram í nóvember lita þróunina. Þá virðist stórfelldur samdráttur í ferðalögum Íslendinga til útlanda á síðasta ári hafa hjálpað innlendum verslunarmönnum.