Fóðurprammi Laxa fiskeldis sökk í Reyðarfirði í vonskuveðri um helgina en innanborðs eru þrjú hundruð tonn af laxafóðri og, það sem er öllu verra, tíu þúsund lítrar af dísilolíu. Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa, sat fund með viðbragðsaðilum í morgun þar sem línurnar voru lagðar fyrir verkefni dagsins.
„Nú er teymi kafara að fara út að prammanum og í dag leggjum við alla áherslu á það að kafað verði að prammanum og aðstæður metnar. Lokað verður fyrir öll möguleg göt þar sem olía gæti lekið út, þannig að það er verkefni dagsins.“
Jens sagðist aðspurður ekki vita til þess að olía hefði leið úr prammanum hingað til.
„Starfsfólkið var að vinna á stöðinni í gær og þar sem pramminn liggur og það varð ekki vart við neina olíu eða neinn leka, þannig að það var þá ekki sjáanlegt að minnsta kosti.“
En er mikil hætta á ferðum?
„Nei eins og pramminn er hannaður og útbúinn er ekki mikil hætta á því en við viljum bara vera algjörlega með það á hreinu að það sé lokað fyrir öll möguleg op þar sem olía gæti mögulega lekið út.“
Ekki sé vitað hvenær hægt verði að hífa prammann aftur upp.
„Nú eru kafararnir bara að fara að sjá hvernig hann liggur og hvernig staðan er. Hann í rauninni liggur núna þannig að hann stendur með trýnið niður og upp á rönd og það er bara verið að meta aðstæður og þá í framhaldinu, í samráði við þá viðbragðsaðila og tryggingarnar, verður tekin ákvörðun um með hvaða hætti við förum þá í fasa tvö að ná prammanum upp.“