Skilaboðin frá ráðuneytinu urðu til þess að Þórólfur fann sig knúinn til að hugsa málið upp á nýtt og finna nýjar leiðir til að lágmarka áhættu á því að veiran berist inn í landið. Sérstaklega er horft til hins nýja breska afbrigðis í því tilliti.
Nýja tillaga Þórólfs snýst um að fólki, sem hingað kemur, verði gert að framvísa neikvæðu COVID-prófi sem ekki má vera eldra en fjörutíu og átta klukkustunda gamalt. Samt sem áður þarf viðkomandi að sæta tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins eða að velja tvöfalda skimun með sóttkví á milli.
Þetta sé skilyrði til að komast um borð í flugvélar og til að komast hingað til lands.
„Þetta er það sem er að gerast í nánast allri Evrópu. Það eru öll önnur lönd að koma með svona tillögur og ég held að það sé bara skynsamlegt í ljósi þessarar aukningar sem við erum að sjá erlendis og á landamærunum. Eftir því sem koma fleiri að landamærunum núna því meiri líkur að eitthvað gæti sloppið í gegn.“
Þórólfur segir að það sé gríðarlega mikilvægt að herða tökin á landamærunum í ljósi þess hve slæm staðan sé í Evrópu og hversu margir greinast við landamæraskimun. Í gær greindust til dæmis 26 við landamæraskimun.