Skimunarskylda á landamærum hefur nú verið innleidd eftir að reglugerð heilbrigðisráðherra var birt í gærkvöldi. Vel hefur gengið að framfylgja henni það sem af er degi og enginn hreyft við mótbárum, að sögn Sigurgeirs Sigmundssonar yfirlögregluþjóns á Keflavíkurflugvelli.
Inntur eftir því hvort eitthvað sé um það að farþegar sem koma til landsins fari í skimun en ætli ekki endilega að virða fimm til sex daga sóttkví sem þá tekur við segir Sigurgeir að landamæraverðir og lögregla heyri reglulega af því.
„Við sjáum það og heyrum af fólki. Það segir sig sjálft þegar fólk er að koma hérna kannski, sem eru kannski hreinir ferðamenn ef svo má að orði komast, og er að koma hér í fjóra fimm daga. Þeir eru ekkert að koma hingað til að vera læstir inn á hótelherbergi sem því nemur. Það blasir við. Þannig að það sést á dvalartímanum og síðan heyrum við það á tali fólks,“ segir Sigurgeir.
Hann segir að tilvik sem þessi komi reglulega upp á Keflavíkurflugvelli. Öllum sé þó bent á skyldu um seinni skimun og sóttkví á milli, með bæði munnlegum og skriflegum upplýsingum.
„Það er ótrúlegt að einhver komi inn án þess að vita um þessa fimm daga sóttkví og seinni skimun. Því þú kemst ekkert inn í landið nema forskrá þig inn á visit.Covid.is, þar sem þessar upplýsingar koma fram. Hérna á landamærunum fá allir afhentan bækling sem er á átta tungumálum og okkar landamæraverðir og lögregla tala við hvern einasta farþega og minnum á þessa skyldu. Síðan fá allir SMS á öðrum og þriðja degi með áminningu um þetta. Þannig að það er eiginlega ótrúlegt ef einhver fer hérna í gegn án þess að vera meðvitaður um þessa skyldu.“
Tilkynna málin til lögreglu
Tilfelli sem þessi, hvar fólk ætlar greinilega beint að ferðast eða í vinnu, eru tilkynnt til staðarlögreglu þegar hægt er.
„Við sjáum kannski hótelbókanir og slíkt og þá látum við staðarlögreglu vita. Og staðarlögregla reynir eftir fremsta megni að framfylgja þessu en það er aldrei hægt að fylgjast með öllum alls staðar.“
Líkt og greint var frá í gær tók skimunarskylda gildi á landamærum í gær og möguleiki á tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins því afnuminn. Inntur eftir því hvort þetta sé nóg í ljósi þess að ferðamenn virði sumir ekki sóttkví milli skimanna segir Sigurgeir skimunarskyldu þétta varnirnar verulega.
„Það er þó búið að taka úr því fyrra sýnið og niðurstaða úr því kemur samdægurs. Það næst þá í skottið á fólki, yfirleitt sama dag eða næsta, ef það er sýkt og greinist sýkt í fyrri skimun. Þannig að þessi tvöfalda skimun er algjört snilldarfyrirbæri og gott að það sé búið að innleiða hana á meðan það er algjört neyðarástand í kringum okkur.“