Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar í morgun. Spáð er norðan- og norðaustan átta til fimmtán metrum á sekúndu, en hvassara á stöku stað. Él á norðurhluta landsins, en bjart sunnan heiða.
Bætir heldur í vind og ofankomu fyrir norðan á morgun, en annars svipað veður. Frost víða 1 til 6 stig, en frostlaust syðst og austast.
Vetrarfærð er í flestum landshlutum og ófært á nokkrum leiðum eftir nóttina. Á Norður- og Austurlandi er víða skafrenningur eða éljagangur. Vegirnir um Ólafsfjarðarmúla og Siglufjarðarveg eru lokaðir vegna snjóflóðahættu.
Ófært er á Öxnadalsheiði og á milli Hofsós og Ketilsás. Þungfært er á milli Dalvíkur og Hjaleyrar einnig á Grenivíkurvegi. Þæfingsfærð er á milli Sauðárkróks og Hofsós, en nánari upplýsingar um færð á vegum má finna á vef Vegagerðarinnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag og laugardag: Norðan 13-20 m/s og snjókoma eða él, hvassast SA-lands, en skýjað með köflum og þurrt að kalla sunnan heiða. Frost víð 0 til 5 stig, en sums staðar frostlaust við sjávarsíðuna.
Á sunnudag: Norðan 8-15 m/s og él, en léttskýjað S- og V-lands. Frost 1 til 8 stig, minnst syðst.
Á mánudag: Norðankaldi og víða dálítil él, en austlægari syðst og líkur á snjókomu þar. Harðnandi frost.
Á þriðjudag og miðvikudag: Útlit fyrir áframhaldandi norðaustlæga átt með úrkomu fyrir norðan og austan, en yfirleitt þurrt annars staðar. Áfram kalt í veðri.