Kvennalið Fram verður án fyrirliða síns Steinunnar Björnsdóttur á næstunni eftir að hún meiddist á höfði í leik Fram og FH í Olís deild kvenna um helgina.
Steinunn Björnsdóttir náði bara að spila nokkrar mínútur í leik Fram um helgina því hún fékk þungt högg á augað þegar skothönd FH-ingsins lenti á höfði hennar.
Steinunn lá lengi í gólfinu og þurfti síðan aðstoð við að komast á varamannabekkinn. Hún fór síðan beint á sjúkrahús.
Í viðtali við vefsíðuna handbolti.is þá segir Steinunn frá því að hún hafi blindasr við höggið og að hún hafi ekki enn endurheimt nema brot af sjóninni á auganu sem er mjög illa útlítandi.
„Þetta er frekar alvarlegt. Ég fékk skothendi í augað og sá ekkert með því í gær en er betri í dag. Núna er eins og ég sé að horfa í gegnum plastfilmu. Mér líður best með að hafa augað lokað,“ sagði Steinunn við handbolta.is ennfremur en hún hitti augnlækni í gær og á annan tíma hjá honum í dag.
Steinunn Björnsdóttir er einn allra besti leikmaður deildarinnar og lykilmaður í bæði vörn og sókn hjá Framliðinu. Liðið kláraði leikinn án hennar en þarf á henni að halda gegn sterkari mótherjum en FH.
Steinunn vonast til að hafa sloppið við heilahristing en hún segir þessi meiðsli hafa verið hrein óheppni.
„Ég er bjartsýn á að fá sjónina til baka en ég þarf að taka því mjög rólega næstu daga,“ sagði Steinunn sem staðfestir að hún verði ekki með Framliðinu í næstu leikjum.
Fjallað verður um umferð helgarinnar í Olís deild kvenna í Seinni bylgjunni í dag en þátturinn hefst klukkan 17.00 á Stöð 2 Sport. Þar munu Svava Kristín Grétarsdóttir og sérfræðingar hennar örugglega fara yfir hvað þessi meiðsli þýða fyrir Framliðið.
Hér fyrir neðan má sjá þegar Steinunn fær þetta högg í leik Fram og FH á laugardaginn en þar má einnig sjá þegar hún þreifar sig áfram á varamannabekkinn.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.