Innlent

Heilbrigðisráðherra gefur þinginu skýrslu um bóluefni

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, mun flytja munnlega skýrslu um öflun og dreifingu bóluefnis á Alþingi í dag. Síðast flutti ráðherra sambærilega skýrslu áður en þingfundum var frestað fyrir jólafrí.

Eftir að ráðherra lýkur máli sínu fara fram umræður um bóluefni í þingsal.

Þingfundur hefst klukkan hálf tvö í dag og á dagskrá eru fleiri mál. Þingfundur hefst með óundirbúnum fyrirspurnartíma þar sem til svara vera forsætisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heilbrigðisráðherra, utanríkisráðherra og menntamálaráðherra.

Fyrstu umræðu um frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um vexti og verðtryggingu verður einnig fram haldið. Í því er lagt er til að takmarkanir verði settar á svokölluð Íslandslán, sem eru verðtryggð jafngreiðslulán til fjörutíu ára. Verði frumvarpið að lögum verður bannað að taka verðtryggt húsnæðislán til lengri tíma en 25 ára. 

Fyrsta umræða um frumvarp Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu heldur áfram í dag.Vísir/Vilhelm

Nokkrar undantekningar eru þó á banninu og mætti fólk undir 35 ára aldri taka lán til 35 ára. Lántaki á aldrinum 35 til 40 ára mætti taka lán til allt að þrjátíu ára. Þá er gert ráð fyrir að fólk undir ákveðnum tekjumörkum megi áfram taka fjörutíu ára lán.

Nokkrir þingmenn eru þegar komnir á mælendaskrá um frumvarpið; Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokks og Helgi Hrafn Gunnarsson og Björn Leví Gunnarsson, þingmenn Pírata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×