Handbolti

„Ætla að vinna eins marga titla og ég get áður en ég hætti í hand­bolta“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Stefán Rafn er hann ræddi við fréttastofu eftir að blekið var komið á blað á Ásvöllum.
Stefán Rafn er hann ræddi við fréttastofu eftir að blekið var komið á blað á Ásvöllum. stöð 2/skjáskot

Stefán Rafn Sigurmannsson kveðst spenntur að spila fyrir Hauka í Olís deild karla á nýjan leik en tilkynnt var í dag hornamaðurinn knái hefði samið við uppeldisfélagið. Hann ræddi við Svövu Kristínu Grétarsdóttir í Sportpakka kvöldsins.

Stefán Rafn fékk samningi sínum við Pick Szeged í Ungverjalandi rift í ársbyrjun. Hann hefur glímt við erfið meiðsli í il undanfarna mánuði en er nú snúinn aftur á uppeldisslóðirnar í Hafnarfirði.

„Þetta var mjög auðveld ákvörðun. Það er bara eitt lið á Íslandi hjá minni fjölskyldu og mér svo mér dettur ekki í hug að fara eitthvað annað en hingað,“ sagði Stefán Rafn.

„Meiðslin taka einhvern tíma. Ég geri það eins vel og ég get að ná mér hundrað prósent. Við sjáum hvenær það verður. Hvort að það verði eftir mánuð eða tvo eða eina viku. Þetta er hægt en gengur ágætlega.“

„Staðan í dag er fín. Það kom bakslag fyrir þremur eða fjórum vikum. Ég fór í sprautu á mánudaginn en verðum svo bara sjá og taka einn dag í einu.“

Hann ætlar ekki að setja neina tímapressu á sjálfan sig, hvenær hann ætli að snúa aftur inn á völlinn.

„Ég ætla ekki að setja neina pressu en við sjáum hvernig þetta fer. Auðvitað vonast ég til þess að þetta komist í lag sem fyrst og ég geti farið að spila handbolta.“

„Það er hundleiðinlegt að koma á æfingar, hvort sem það er hér eða annars staðar, og horfa á endalaust. Ég vona að þetta komist í lag sem fyrst,“ segir Stefán sem er glaður að vera kominn aftur í Hauka.

„Ásvellir eru mitt annað heimili og var það alltaf. Ég er mjög glaður að vera kominn hingað. Vinir mínir eru hérna og það eru mjög spennandi tímar framundan.“

Aðspurður um hvort að hugurinn leiti út á nýjan leik svaraði hornamaðurinn knái:

„Ég er kominn í Hauka til þess að gefa allt í þetta. Ég er mjög glaður með þá ákvörðun. Þetta var mjög skemmtilegur tími í atvinnumennsku en nú er kominn annar tími fyrir mig í lífinu. Það er að koma heim í Hauka og reyna vinna eins marga titla og ég get áður en ég hætti í handbolta,“ sagði Stefán.

Klippa: Sportpakkinn - Stefán Rafn um komuna í Hauka



Fleiri fréttir

Sjá meira


×