Aron og Króatinn Luka Cindric misstu báðir af HM í Egyptalandi vegna meiðsla en eru í hópnum sem fer til Ungverjalands, samkvæmt frétt spænska blaðsins El Mundo Deportivo.
Aron hefur glímt við meiðsli í hné sem héldu til að mynda aftur af honum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í lok síðasta árs. Meiðsli hans voru mikið í umræðunni eftir að Tomas Svensson, markvarðaþjálfari íslenska landsliðsins, sagði að læknir íslenska liðsins hefði ekki fengið að skoða Aron en sá misskilningur var síðar leiðréttur.
HM lauk á sunnudaginn en álagið á þá sem þar spiluðu minnkar ekki því að Barcelona spilar væntanlega 13 leiki á næstu 33 dögum. Sá fyrsti er gegn Veszprém en liðin eru í efstu tveimur sætunum í B-riðli Meistaradeildarinnar. Barcelona er þó með þriggja stiga forskot.
Barcelona varð fyrir skakkaföllum á HM þar sem þrír leikmenn liðsins meiddust og verða því ekki með gegn Veszprém. Það eru Frakkarnir Dika Mem og Timothey N‘Guessan, og Slóveninn Blaz Janc. N‘Guessan verður frá keppni næstu sex vikurnar en hugsanlegt er að Mem og Janc verði með í heimaleiknum gegn Veszprém sem er 9. febrúar.