
Fyrri vélin, TF-ICN, sem kallast Mývatn, lenti í Keflavík laust upp úr klukkan eitt eftir fjögurra tíma flug frá Spáni en þar hafa fimm af sex Max þotum Icelandair verið geymdar undanfarna sextán mánuði. Henni var síðan ekið að flugskýlum félagsins, eins og sjá mátti í fréttum Stöðvar 2.
Flugstjórarnir Haraldur Baldursson og Kári Kárason segjast ekki hafa verið stressaðir fyrir fyrsta flugtakið. Þeir hafi fyrst og fremst verið glaðir.

„Það er náttúrlega búið að uppfæra forritunina í þessum hluta flugstjórnarkerfisins sem voru vandræði með. Við erum búnir að prófa þetta í flughermum og búnir að æfa okkur mikið á þessu öllu saman. Og við vorum bara mjög glaðir að komast í loftið á þessum flugvélum,“ segir Haraldur.
Heimflugið segir hann hafa gengið eins og í sögu.
„Vélin reyndist vera bara í fullkomnu standi. Við höfum ekki fundið eitt einasta smáatriði sem við gætum sett út á.“

Um fimmtán mínútum síðar lenti seinni vélin, TF-ICO, Búlandstindur, en henni flugu þeir Þórarinn Hjálmarsson og Eiríkur Haraldsson. Henni var einnig ekið að viðhaldsstöð Icelandair þar sem vélanna bíða ítarlegri skoðanir. Haraldur segir vonir bundnar við komu þeirra enda séu þær hagkvæmar og hljóðlátar.
„Og auðvitað fyrir okkur hjá Icelandair, þá gefur þetta von um nýja og betri tíma,“ segir flugstjórinn Haraldur.

Icelandair eru þegar búið að fá afhentar sex Max-þotur. Þrjár til viðbótar bíða tilbúnar hjá Boeing-verksmiðjunum í Seattle og bætast í flota Icelandair síðar á árinu. Loks koma aðrar þrjár á næsta ári og verða þær þá orðnar tólf talsins.
Icelandair stefnir að því að taka þær í notkun á vormánuðum. Hversu hratt þær komast svo í notkun, - það eru sennilega kórónuveiran og bólusetningar sem ráða mestu um það.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.