Vandamálin geta verið mjög ólík og haft mismikil áhrif á sambönd okkar. Flestir kynlífsráðgjafar segja að tjáskipti milli para skipti hér mestu máli því að ef vandinn er ekki ræddur þá eru litlar líkur á því að hægt sé að laga hann.
Fólk virðist stundum eiga erfiðara með að tjá sig um vandamál tengd kynlífi og upplifa það í sumum tilvikum sem einhverja skömm. Nánd, innileiki og kynlíf eru yfirleitt mjög mikilvæg atriði í samböndum og það sem gerir góð sambönd enn betri.
Könnunin var að þessu sinni kynjaskipt og tóku alls rúmlega fimm þúsund manns þátt. Eins og sjá má á niðurstöðunum hér fyrir neðan er ekki hægt að greina afgerandi mun á milli svara kynjanna. Greinilegt er að flestir eru að kljást við vandamál tengd kynlífi af einhverju tagi en aðeins þriðjungur svarenda svarar því að kynlíf sé ekki vandamál í sambandinu.
Niðurstöður*:
Er kynlíf vandamál í sambandinu þínu?
Karlar:
- Já, mikið - 26%
- Já, að einhverju leyti - 30%
- Já, lítið - 11%
- Nei - 33%
Konur:
- Já, mikið - 25%
- Já, að einhverju leyti - 25%
- Já, lítið - 12%
- Nei - 38%
Umsjónarmaður Makamála mætti í Brennsluna á FM957 og ræddi niðurstöðurnar ásamt því að kynna til leiks nýja Spurningu vikunnar. Hægt er að hlusta á líflegar umræður hér fyrir neðan.
*Tekið skal fram að niðurstöður byggjast eingöngu á svörum lesenda Vísis og því ekki hægt að alhæfa um niðurstöður. Kannanir Makamála eru ætlaðar til skemmtunar og til að vekja umræðu og athygli á ýmsum málefnum.