Umræddur karlmaður var handtekinn í íbúð í Urriðaholti í Garðabæ skömmu eftir að karlmaður var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði. Litháinn er einn átta sem nú eru í gæsluvarðhaldi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við málið. Einn þeirra, rúmlega fertugur Íslendingur, var með íbúðina í Urriðaholti á leigu þar sem Litháinn var handtekinn.
Rannsókn málsins er umfangsmikil og nær allt lögregluembættið á höfuðborgarsvæðinu kemur að henni með einum eða öðrum hætti. Að minnsta kosti þrír bílar hafa verið haldlagðir í tengslum við rannsóknina og húsleit verið gerð á ríflega tuttugu stöðum víða um land - sú síðasta í gærkvöld, samkvæmt heimildum fréttastofu. Þá er unnið að því að skoða farsímagögn út frá símamöstrum á svæðinu en það er meðal annars gert til þess að tengja aðila saman.
Talið er að skammbyssa hafi verið notuð en hún er enn ófundin. Rannsókn stendur yfir á skothylkjum og byssukúlum sem fundust á vettvangi og talið er að skotið hafi verið hátt í tíu sinnum úr byssunni.
Heimildir fréttastofu herma að Litháinn sé grunaður byssumaður en að hann hafi staðfastlega haldið fram sakleysi sínu.