FKA Twigs opnaði sig í viðtali í tímaritinu Elle nú á dögunum, þar sem hún sagðist meðal annars telja sig heppna að hafa lifað sambandið af. Það væri í raun kraftaverk því hún hafi verið niðurbrotin eftir andlegt og líkamlegt ofbeldi.
„Ég held það sé heppni. Ég vildi að ég gæti sagt að ég hafi fundið einhvern styrk og séð eitthvað ljós. Ég vildi að ég gæti sagt að þetta sé vitnisburður um hversu sterkur einstaklingur ég er eða að móðir mín hafi alið mig svona upp, en það er ekki það. Það er einskær heppni að ég er ekki lengur í þessum aðstæðum,“ sagði söngkonan.
Qualley skrifaði athugasemd við Instagram-færslu FKA Twigs þar sem hún deildi forsíðu blaðsins, en leikkonan skrifaði einfaldlega „takk fyrir“. Móðir Qualley, leikkonan Andie MacDowell, skildi einnig eftir athugasemd og sagði báðar stúlkurnar vera dýrmætar.
FKA Twigs segist enn vera að vinna úr sambandinu, enda hafi það verið erfitt á sínum tíma að meðtaka að hún væri í ofbeldissambandi. Hún voni þó að hennar saga geti hjálpað öðrum.

„Þetta er mjög nýtt fyrir mér, augljóslega. Ég veit að þessi vegferð verður ekki fullkomin en ég vona að ef ég get tekið lítil skref, og fólk sér mig endurheimta líf mitt, þá verði það innblástur fyrir aðra.“
Shia LaBeouf hefur hafnað ásökunum í kæru sem hún lagði fram, en í yfirlýsingu frá leikaranum í janúar sagðist hann ekkert afsaka hegðun sína.
„Ég hef engar afsakanir fyrir alkahólisma mínum eða yfirgangssemi, bara réttlætingar. Ég hef beitt mig og alla í kringum mig ofbeldi í mörg ár. Ég hef sært fólkið sem stendur mér næst. Ég skammast mín fyrir þá forsögu og bið alla þá sem ég hef sært afsökunar. Það er ekkert annað sem ég get sagt,“ sagði í upphaflegri yfirlýsingu leikarans.