Jóna Hrönn Bolladóttir, prestur þjóðkirkjunnar, leiddi bænastund og gengu viðstaddir með höfuð- eða vasaljós á minningarathöfninni sem vinir og fjölskylda fjallgöngumannsins skipulögðu.
Ekkert hefur spurst til Johns Snorra eða samferðamanna hans frá því að þeir freistuðu þess að komast á tind fjallsins K2 í Pakistan 5. febrúar. Pakistönsk yfirvöld töldu John Snorra, Ali Sadpadra frá Pakistan og Juan Pablo Mohr frá Síle formlega af um miðjan síðasta mánuð. Lík þeirra hafa ekki fundist.

Einar Bárðarson, einn aðstandenda minningarathafnarinnar í kvöld, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hugmyndin með stundinni væri að kveikja ljós til að lýsa John Snorra leiðina heim.
Ljósmyndari Vísis var viðstaddur athöfnina í kvöld. Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir þaðan.





