Handbolti

Rosa­­legt flautu-sirkus­­mark tryggði læri­sveinum Erlings sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erlingur á hliðarlínunni í kvöld.
Erlingur á hliðarlínunni í kvöld. EPA-EFE/MACIEJ KULCZYNSKI

Holland vann eins nauman eins marks sigur á Póllandi í undankeppni EM í handbolta og hægt er. Lokatölur 27-26 en Holland skoraði eitt svakalegasta sigur-sirkusmark sem hefur sést. Markið má sjá hér að neðan.

Leikur Póllands og Hollands í dag var frábær skemmtun og einkar jafn frá upphafi til enda. Jafnt var á öllum tölum í fyrri hálfleik en staðan 11-11 er liðin gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik var áfram jafnt á öllum tölum, það er þangað til í lokasókninni. Staðan var jöfn 26-26 þegar Holland átti hreint út sagt stórkostlega útfærða sókn sem endaði með ótrúlegu sirkusmarki í þann mund er leiktíminn rann út.

Lokatölur í kvöld 27-26 Hollandi í vil. Þeirra markahæsti maður var Kay Smits með tíu mörk en Luc Steins gerði sjö. Erlingur Richardsson er sem fyrr þjálfari Hollands.

Holland er nú með fimm stig, líkt og Slóvenía en liðin eru jöfn á toppi riðilsins. Þar á eftir kemur Pólland með fjögur stig og Tyrkland er svo með þrjú stig. Slóvenía og Tyrkland eiga enn eftir að mætast í fjórðu umferð undankeppninnar. Að þeim leik loknum eru tvær umferðir eftir. Þar mætast Holland og Pólland á nýjan leik sem og lærisveinar Erlings eiga eftir útileik í Tyrklandi.

Tvö stig í þessum tveimur leikjum myndu að öllum líkindum gulltryggja sæti Hollands á EM 2022 en mótið fer fram í Ungverjalandi og Slóvakíu að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×