Fótbolti

Bíða enn svara frá UEFA vegna Gylfa, Rúnars, Jóhanns Berg og Jóns Daða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson á enn eftir að fá grænt ljós fyrir Þýskalandsleikinn.
Gylfi Þór Sigurðsson á enn eftir að fá grænt ljós fyrir Þýskalandsleikinn. VÍSIR/GETTY

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, veit ekki enn hvort að hann geti notað leikmennina sem spila hjá enskum liðum.

Það eru aðeins átta dagar í fyrsta leik á móti Þjóðverjum en KSÍ bíður enn svara frá Knattspyrnusambandi Evrópu.

Það kom fram á blaðamannafundi Arnars og KSÍ í dag að Ísland væri ekki enn búið að fá lokasvör varðandi þessa leikmenn sem eru að koma frá Englandi til móts við íslenska landsliðið.

Gylfi Þór Sigurðsson, Rúnar Alex Rúnarsson og Jóhann Berg Guðmundsson spila með liðum í ensku úrvalsdeildinni en Jón Daði Böðvarsson er að spila í ensku b-deildinni.

„Það er enn spurningarmerki með Þýskaland, hvort leikmennirnir okkar sem spila á Bretlandseyjum fái að koma inn til Þýskalands. Við erum að bíða eftir svörum frá UEFA og þýskum yfirvöldum. Það er stærsti óvissuþátturinn í þessu öllu saman,“ sagði Arnar á blaðamannafundinum í dag.

Arnar segir að hann gæti þurft að kalla á leikmenn úr 21 árs landsliðinu fáist ekki þetta leyfi.

„Ef Þýskaland opnar ekki fyrir leikmenn okkar þá köllum við leikmenn úr U21 hópnum. Við viljum að strákarnir fái reynsluna af því að spila á lokamóti. A-landslið karla er samt sem áður efst í píramídanum,“ sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×