Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Grótta 30-27 | Afturelding vann þriggja marka sigur á Gróttu

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Afturelding vann þriggja marka sigur á Gróttu er liðin mættust í Olís-deild karla í dag. Lokatölur leiksins 30-27.

Fyrir leikinn var Afturelding í 4. Sæti með 17 stig. Grótta var í því 10. með 10 stig.

Grótta byrjaði af krafti. Gróttuvörnin og Stefán Huldar Stefánsson vörðu fyrstu skot Aftureldingar.

Það tók Aftureldingu um fimm mínútur að koma boltanum í markið. Eftir það fóru þeir að leiða með 1-2 mörkum.

Þegar stundarfjórðungur var búinn af fyrri hálfleik var staðan 7-3 fyrir Aftureldingu. Þá tekur Arnar Daði, þjálfari Gróttu leikhlé.

Grótta náði að koma sér aftur inn í leikinn og var eins marks munur á liðinum þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 13-12.

Leikmenn Aftureldingar mættu mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleik. 

Rúmum þremur mínútur eftir að seinni hálfleikur var flautaður á brýtur Gunnar Malmqvist á Daníel Örn Griffin með þeim afleiðingum að hann þurfti að fara útaf og sjúkrabíll sótti hann þegar leið á. 

Daníel hafði verið atkvæðamestur í Gróttuliðinu fram að þessu og misstu þeir hreinlega höfuðið eftir þetta. 

Afturelding hélt áfram að spila vel og Grótta átti erfiðara með að finna markið. Liðin skildu að með þremur mörkum 30-27.

Afhverju vann Afturelding?

Þeir voru bara einfaldlega betra liðið í dag en það er þó ekki hægt að taka neitt af Gróttu. Voru agaðir sóknarlega og fengu mörk frá öllum stöðum vallarins. Einnig var varnarleikurinn góður og markvarslan eftir því. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá liði Aftureldingar var það Þorsteinn Gauti Hjálmarsson sem var atkvæðamestur með 6 mörk. Honum á eftir voru Þrándur Gíslason Roth, Blær Hinriksson og Bergvin Þór Gíslason allir með 5 mörk. 

Varnarleikur Aftureldingar var einnig góður og klukkaði vörnin nokkra bolta. 

Hjá Gróttu var Birgir Steinn Jónsson atkvæðamestur með 9 mörk. Daníel Örn Griffin og Ólafur Brim Stefásson voru báðir með 5 mörk. 

Hvað gekk illa?

Grótta eltu nánast allan leikinn og voru ekki að ná taktinum. Markavarslan var nánast enginn og hrundi leikurinn þeirra þegar að Daníel Örn fór útaf. 

Hvað gerist næst?

Í næstu umferð sækir Afturelding, Stjörnuna heim, þann 25. mars kl 19:30. 

Grótta eru búnir að spila sinn leik í næstu umferð en í 17. umferð sækja þeir ÍR heim, þann 29. mars kl 20:15. 

Arnar Daði Arnarsson: Svekktur yfir frammistöðu strákana á tímabili í þessum leik

,,Ég er svekktur. Svekktur yfir frammistöðu strákana á tímabili í þessum leik. Við byrjum leikinn ekki nægilega vel og byrjum seinni hálfleikinn ekki nægilega vel. Fáum enga markvörslu í seinni hálfleik og það er erfitt að vinna leik þegar maður er með tvo varða bolta í seinni hálfleik,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, svekktur eftir tapið í dag. 

Grótta var aldrei langt undan í fyrri hálfleik og var staðan 13-12 í hálfleik fyrir Aftureldingu. Annað var þó að sjá liðið í seinni hálfleik þar sem Afturelding fór að keyra fram úr þeim. 

,,Við ætluðum að fara í 7 á 6 eins og á móti FH en það gekk ekki. Markmaðurinn ver 2-3 skot og við töpum einum bolta. Við erum að elta allan leikinn.“ 

,,Svo lendum við í því að Griffin sem var okkar markahæsti maður á þeim tímapunkti meiðist og er tekin úr leik. Þá þurftum við að breyta og hætta því. Mér fannst við leysa vörn Aftureldingar vel í seinni hálfleik en það er vörnin og markvarslan hjá okkur sem fer úrskeiðis.“

Næsti leikur Gróttu er á móti botnliði ÍR.

,,Ég sagði við strákana að núna fáum við 8 daga pásu á meðan ÍR er að keppa bæði á morgun og á fimmtudaginn þannig það verður ekki afsökun að við verðum þreyttir. Við þurfum að nýta þessa viku,“ sagði Arnar Daði að lokum. 

Gunnar Magnússon: Þetta var góður sóknarleikur, kannski einfaldur en góður

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var sáttur með leik sinni manna er þeir unnu þriggja marka sigur á Gróttu í dag, 27-30.

,,Ég er ánægður með tvö stig. Það var margt sem gekk vel í dag. Við vorum að leysa sóknina vel á móti 5-1 vörn og að sama skapi varnarlega þegar að þeir fóru í 7 á 6. Þetta var góður sigur, margir að leggja í púkkið og liðsheildin frábær.“

Eins og fyrr segir voru margir að leggja í púkkið hjá Aftureldingu í kvöld og deilast mörkin á allar stöður vallarins.

,,Þetta var góður sóknarleikur, kannski einfaldur en góður. Við erum að fá mörk úr hornunum, línu og fyrir utan. Að sama skapi, þrátt fyrir að fá á okkur 27 mörk vorum við einnig að spila fanta góða vörn.“

Þrátt fyrir að spila góðan leik vantaði nokkra lykilmenn í liðið í dag.

,,Við eigum mikið inni. Guðmundur Árni var veikur og kemur inn í næsta leik. Einar Ingi er búinn að vera í banni í tvo leiki og við fáum hann inn og svo vonast ég til að Arnór komi inn í þetta.“

Afturelding mætir Stjörnunni í næstu umferð Olís-deildar karla.

,,Þetta eru allt úrslitaleikir, nóg eftir og þetta verður áfram blóðug barátta um úrslitakeppni,“ sagði Gunnar að lokum

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira