Þetta staðfestir Björn Gunnlaugsson aðstoðarskólastjóri í samtali við Vísi. Um er að ræða kennara sem kennir í sjötta bekk skólans og eru nemendurnir sem hafa verið sendir í sóttkví í fjórum bekkjum í þeim árgangi.
Björn segir að umræddur kennari hafi ekki verið í vinnu síðan á þriðjudaginn. Um öryggisráðstöfun sé að ræða og verði nemendur í sóttkví í dag og boðaðir í sýnatöku í dag eða á morgun.
Björn segir að skólinn hafi verið í nánum samskiptum við smitrakningarteymið og að verið sé að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að nokkur smit hefðu greinst innanlands um helgina og þau hefðu ekki verið öll í sóttkví. Leikmaður Fylkis í Pepsi-deild karla er meðal smitaðra og eru liðsfélagar hans og Stjörnunnar í sóttkví eftir að liðin mættust í Lengjubikarnum um helgina.
Að neðan má heyra Þórólf fara yfir stöðu mála í Bítinu í morgun.