Ísland var í neðri styrkleikaflokki þegar dregið var í umspil í dag ásamt öðrum liðum sem unnu sig upp úr undankeppninni um helgina. Ísland gerði það með því að vinna Litáen og Ísrael eftir að hafa tapað gegn Norður-Makedóníu, en allir leikirnir fóru fram í Skopje í Norður-Makedóníu.
Umspilsleikirnir fara fram 16. eða 17. apríl, og 20. eða 21. apríl. Fyrri leikurinn í einvígi Íslands og Slóveníu verður í Slóveníu en sá seinni á Íslandi. Sigurliðið fer á HM á Spáni í desember.
Slóvenía varð í 19. sæti á HM 2019 og í 16. sæti á EM í desember. Þar tapaði liðið öllum sínum leikjum, gegn Danmörku (20-13), Frakklandi (27-17) og Svartfjallalandi (26-25).
Slóvenía hefur sex sinnum komist á HM og best náð 8. sæti. Ísland hefur einu sinni verið með á HM, árið 2011, og endaði þá í 12. sæti.
Heimsmeistaramótið fer fram á Spáni dagana 1.-19. desember. Heimakonur eru öruggar um sæti á HM líkt og Evrópumeistarar Hollands, sem og Noregur, Frakkland, Króatía og Danmörk, en tíu Evrópuþjóðir bætast svo við í apríl.
Einvígin í umspilinu:
- Tyrkland – Rússland
- Tékkland – Sviss
- Slóvenía – Ísland
- Slóvakía – Serbía
- Úkraína – Svíþjóð
- Austurríki – Pólland
- Ungverjaland – Ítalía
- Rúmenía – Norður-Makedónía
- Portúgal – Þýskaland
- Svartfjallaland – Hvíta-Rússland