Einn starfsmaður Laugarnesskóla greindist með kórónuveiruna síðustu helgi og síðan þá hafa þrettán nemendur einnig greinst með veiruna eftir að hópsýking kom upp í skólanum. Auk þeirra 25 starfsmanna sem fóru í skimun í gær voru um áttatíu nemendur einnig skimaðir fyrir veirunni.
Björn Gunnlaugsson, aðstoðarskólastjóri Laugarnesskóla, segir ekki staðfest hvort einhver nemandi hafi greinst í gær.
„Ég hef ekki heyrt beint frá neinum en það finnst mér góðar fréttir og ég vona að það þýði bara að það hafi enginn greinst smitaður. En ég ætla samt að vera með símann í vasanum í dag til öryggis.“
Fjöldi fólks í sóttkví er nú um 1500. Samkvæmt tilkynningu almannavarna má búast við því að sú tala fari hækkandi í dag í ljósi þess að eitt smit greindist utan sóttkvíar.
Smit hjá nemanda greindist á föstudag
Í vikunni voru allir nemendur Laugarnesskóla og Laugalækjaskóla sendir í úrvinnslusóttkví vegna hópsýkingarinnar en því er nú lokið.
Þá voru um 400 unglingar í Hafnarfirði sendir í sóttkví á föstudag eftir að nemandi í unglingadeild Öldutúnsskóla smitaðist af nemanda í Laugarnesskóla, sem smitaði svo nemanda í Víðistaðaskóla.
Ef ekkert smit greindist í gær meðal nemenda Laugarnesskóla eru því 22 nemendur og sex starfsmenn Lauganesskóla í sóttkví.
Síðast greindist smit hjá nemanda greindist á föstudag og segir Björn því ljóst að enn sé möguleiki að einhver smit greinist til viðbótar.
„Þetta er samt ekki alveg búið. Það kom upp smit hjá einum nemenda hjá okkur á föstudag svo að bekkur þess nemanda, 21 eða 22 börn, og allir starfsmenn sem voru að kenna þeim bekk síðast þegar hann var í skólanum verða í sóttkví fram á þriðjudaginn.“