Fjórir dagar eru síðan Matvælastofnu réð fólki eindregið frá því að taka hunda með á gosstöðvarnar í Geldingadölum. Mikil mengun væri á svæðinu af efnum sem geti haft skaðleg áhrif á hunda. Jafnframt sé hætta á ýmis konar slysum
Í tilkynningu Matvælastofnunar kemur fram að á gossvæðinu sé töluvert mikið áreiti, bæði hljóð og lykt, flugvélar, þyrlur og drónar og mikið af fólki, þannig að margir hundar geti orðið stressaðir. Rannsóknir Jarðvísindastofnunar og Veðurstofunnar á regnvatni á svæðinu hafi sýnt mikla efnamengun. Meðal annars hafi flúrsýra greinst langt yfir neysluvatnsviðmiðum, allt að 60 falt magn. Einnig mælist mikil saltsýra og sýrustig er mjög lágt. Ef hundar drekka vatn á svæðinu, éta snjó, eða sleikja þófa getur það haft neikvæð heilsufarsleg áhrif. Saltsýra og lágt sýrustig á yfirborði getur ert þófa og sært. Hundur með sára þófa sleikir þá gjarnan og efnin geta borist í hundinn.
Gunnar Schram yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir fráleitt að taka hunda með sér að gosinu og segist undrandi að fólk skuli ennþá taka þá með sér.
„Mér finnst ekki veita af varnaðarorðum þegar kemur því að biðja fólk um að taka ekki hunda með sér. Það er eins og að vera með kanarífugl í kolanámu,“ segir Gunnar.