Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi rétt í þessu. Hann ítrekaði að þegar hann talaði um ferðalanga ætti hann við alla á faraldsfæti, hvar svo sem þeir byggju.
Þórólfur sagði forvitnilegt að skoða samhengið milli smita á landamærunum og smita innlanlands á síðustu misserum. Á þeim tíma hefðu 105 smit greinst á landamærunum og 97 innanlands, þeim tengd.
Þrjár stórar hópsýkingar bæru uppi umrædd smit.
Ein hefði verið sökum afbrigðis sem ekki hefði tekist að „staðsetja“ á landamærunum en 48 hefðu greinst innanlands og á annað þúsund farið í sóttkví. Önnur hefði verið rakin til einstaklings sem hélt ekki sóttkví en tólf greindust innanlands og á fjórða hundrað fóru í sóttkví. Þá hefðu ellefu greinst í þriðju hópsýkingunni og um 50 farið í sóttkví.
Sóttvarnalæknir sagði ljóst að það nægði til að nokkrir einstaklingar kæmust í gegnum þær girðingar sem hefðu verið reistar á landamærunum til að hópsýkingar spryttu upp í samfélaginu, sem gætu svo komið nýrri bylgju af stað.