Þetta eru góð tíðindi fyrir Börsunga en hinn 34 ára gamli Pique hefur glímt við meiðsli í hné og ekki getað spilað síðasta mánuðinn. Ronald Koeman ætlar ekki að taka of mikla áhættu með Pique en framundan er einnig úrslitaleikurinn í spænska bikarnum, gegn Athletic Bilbao eftir rúma viku.
Auk Pique snýr Sergi Roberto aftur eftir meiðsli en hann hefur nánast verið frá keppni í fjóra mánuði vegna meiðsla í læri.
Leikmenn Real Madrid hafa haft skamman tíma til að jafna sig eftir sigurleikinn gegn Liverpool á þriðjudag.
Real verður áfram án miðvarðaparsins Sergio Ramos og Raphaël Varane. Ramos er meiddur og Varane greindist með kórónuveiruna daginn fyrir leikinn við Liverpool. Dani Carvajal er ekki enn klár í slaginn.
Möguleiki var talinn á því að Eden Hazard gæti tekið þátt í leiknum eftir að hafa getað æft með Real í vikunni en hann er ekki í leikmannahópi liðsins.
Þegar níu umferðir eru eftir af spænsku deildinni er Atlético Madrid efst með 66 stig, Barcelona er með 65 og Real Madrid 63. Atlético spilar á sunnudag svo sigurliðið á morgun kemst á toppinn.
Leikur Real Madrid og Barcelona hefst kl. 19 annað kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.