Síðast voru gerðar hraunflæðismælingar á gossvæðinu við Fagradalsfjall í gær. Niðurstöður úr þeim sýna að rennslið sólarhringinn á undan var nálægt átta rúmmetrum á sekúndu. Meðalrennsli frá því gosið hófst hefur verið um fimm rúmmetrar á sekúndu og aukningin því talsverð.
„Eftir þrjár vikur er það heldur meira en það var fyrsta daginn og það hefur sem sagt ekki dregið úr, við sjáum engin merki um endi heldur ef eitthvað er hefur það aðeins aukist. Það er ólíkt því sem við sjáum í flestum eldgosum hér á landi,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Ekki er útilokað að nýjar sprungur opnist á svæðinu, einkum norðaustan við gosstaðina þrjá.
„Það gæti brennt þig, ef þetta kæmi upp beint við hliðina á, ef þú værir með hendina hérna eða í stuttbuxum, aðalatriðið er að hlaupa í burtu og ef sprungan liggur svona þá hleypurðu þangað eða þangað,“ sagði Magnús og lýsti aðstæðum með handabendingum sem sjá má í klippunni hér að neðan.
Ýmsar ráðstafanir hafa nú verið gerðar til að auka öryggi við gosstöðvarnar, sem rýmdar verða klukkan ellefu í kvöld. Svokölluð A-leið að gosinu var endurstikuð í gær eftir uppfært hættumat á svæðinu og hefur fólk gengið þá leið í dag. Þá var tjald björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, sem tekið var niður eftir að ný sprunga opnaðist um 200 metrum frá, reist á nýjum stað í Meradölum í gærmorgun.

„Hérna erum við með litla vettvangsbækistöð fyrir okkar fólk á svæðinu, það sem það getur alla vega komið í smá hlýju til að borða nestið sitt eða eitthvað svoleiðis og haldið svo áfram. Þá þarf það ekki að keyra alla leið til Grindavíkur til að fara í svoleiðis,“ sagði Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitarmaður, í dag.