Þær Auður Eyþórsdóttir, Brynja Rut Hjartardóttir, Ingunn Íris Óskarsdóttir, Katrín Rós Bárðardóttir og Tinna Björk Ingimarsdóttir stofnuðu hönnunarfyrirtækið Tabik og stefna á að fara áfram með hönnunarverkefnin. Þær eru allar nemendur í Verzlunarskóla Íslands og hver stafur í nafninu Tabik er fyrsti stafurinn í nöfnum stofnendanna.
Þær segjast hafa ákveðið að framleiða vöru sem væri úr endurnýttu efni og umhverfisvæn.
„Við öfluðum okkur síðan upplýsinga á netinu og sáum að axlartöskur eru mikið í tísku. Þá vorum við komnar með hugmyndina og þurftum að finna efni til að nota. Eftir nokkrar vangaveltur var að lokum ákveðið að endurnýta 66°Norður sjógalla af íslenskum sjómönnum.“

Fyrsta skref er að þrífa gallana
Þær segjast hafi ákveðið strax í upphafi að framleiða vöru sem væri úr endurnýttu efni og umhverfisvæn.
„Sjógallarnir frá 66° Norður urðu fyrir valinu vegna sögunnar og þeirra gæða sem fylgja þeim. Efnið er vatnshelt og mjög slitsterkt sem gerir það að verkum að töskurnar henta við allar íslenskar aðstæður. Þessir gallar hafa verið notaðir við fiskvinnslu í marga áratugi hér á landi og því var mikill kostur að við höfðum möguleika á því að fá sjógallana frá Brim. Einnig fannst okkur tilvalið að láta töskurnar heita Heimaey vegna þeirra tengsla sem sjógallarnir hafa við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Sjóbuxurnar eru mjög áberandi í Herjólfsdal og er það ekki af ástæðulausu.“

Stúlkurnar segjast fá sjógalla afhenta frá sjómönnum sem vinna á þremur skipum Akurey, Viðey og Helgu Maríu sem eru í eigu útgerðarinnar Brim.
„Við erum mjög þakklátar þeim fyrir að hafa unnið svona vel með okkur. Við byrjum á að fá sjógallana frá sjómönnunum og næsta skref er að þrífa þá. Þegar við höfum þrifið þá eins vel og hægt er, þá er komið að því að sníða töskur úr þeim. Svo er bara hafist handa við það að sauma, festa smellur og axlarbönd.“

Vilja veita innblástur
Þær hafa mikinn metnað fyrir verkefninu og stefna með það enn lengra.
„Endurnýjun og sjálfbærni skiptir okkur máli vegna þess að við viljum koma vel fram við jörðina okkar og skilja við hana í góðu ástandi. Í nútímaneyslusamfélagi er mikið um hraðtísku sem fylgir gríðarleg sóun og það er því töluvert magn af efni og fatnaði sem fer til spillis. Það skiptir okkur miklu máli að við leggjum okkar af mörkum til þess að passa upp á umhverfið."

66°Norður er nú búið að bjóða stúlkunum í Tatik að selja töskurnar í verslun fyrirtækisins á Laugavegi og vonast er til að þær verði fáanlegar þar á næstu dögum.

„Við munum halda áfram að framleiða töskur svo lengi sem áhugi er fyrir því. Með framleiðslu okkar miðum við að því málefni að veita fólki innblástur til þess að hugsa vel um umhverfið og endurnýta. Markmið okkar er einnig að ná góðum árangri í keppninni JA Iceland sem við erum að taka þátt í ásamt 14 öðrum framhaldsskólum og um 600 nemenda hér á Íslandi. Vinningsfyrirtækið fer í Evrópukeppni JA Europe sem er frábært tækifæri til þess að koma þessu mikilvæga málefni á framfæri,“ segja þær að lokum.