Ísland vann stórsigur á Ísrael, 39-29, í lokaleik sínum í riðli 4 í undankeppni EM 2022 á Ásvöllum í dag. Þetta var annar tíu marka sigurinn á Ísrael á innan við viku. Ísland vann leik liðanna í Tel Aviv á þriðjudaginn, 20-30.
Vörnin var ekki jafn sterk og í þeim leik og markvarslan mun slakari en sóknin og hraðaupphlaupin gengu vel.
Ísland lenti í 2. sæti riðils 4 með átta stig. Tapið slæma fyrir Litáen á fimmtudaginn kom í veg fyrir að íslenska liðið ynni riðilinn.
Sigvaldi Guðjónsson var markahæstur í íslenska liðinu í dag með sjö mörk. Sveinn Jóhannsson kom næstur með fimm mörk. Alls komust tíu leikmenn íslenska liðsins á blað í leiknum.
Íslenska liðið gaf tóninn strax í upphafi leiks. Það skoraði fyrstu tvö mörk leiksins og þegar Oleg Boutenko, þjálfari Ísraels, tók leikhlé á 12. mínútu var staðan 9-3, Íslandi í vil.
Íslendingar skoruðu mikið eftir hraðaupphlaup og hraða miðju. Ísraelar töpuðu boltanum hvað eftir annað klaufalega og Íslendingar refsuðu grimmilega.
Íslenska vörnin datt aðeins niður seinni hluta fyrri hálfleik. Eftir að hafa aðeins fengið á sig fjögur mörk á fyrstu fjórtán mínútunum skoruðu gestirnir tíu mörk á síðustu sextán mínútunum. Viktor Gísli varði átta skot í fyrri hálfleik (36 prósent), flest úr dauðafærum.
Eftir að Daniel Moshindi minnkaði muninn í fimm mörk, 14-9, skoraði Ísland sex mörk gegn tveimur og náði níu marka forskoti, 20-11. Ísrael skoraði hins vegar þrjú af síðustu fjórum mörkum fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum var 21-14, Íslandi í vil. Sigvaldi fór mikinn í fyrri hálfleik og skoraði sex mörk.
Talsverður losarabragur var á vörn íslenska liðsins í upphafi seinni hálfleiks og Ísraelar áttu full auðvelt með að skora. Þá datt markvarslan niður í seinni hálfleik og hvorki Viktor Gísli né Ágúst Elí Björgvinsson náðu sér á strik. Þeir vörðu aðeins samtals fimm skot í seinni hálfleik.
Sóknarleikurinn var þó áfram góður og Ísraelar minnkuðu muninn ekki að neinu ráði. Minnstur varð munurinn í seinni hálfleik sex mörk.
Í stöðunni 32-25 stigu Íslendingar á bensíngjöfina og slitu sig endanlega frá Ísraelum. Þeir skoruðu fimm mörk gegn tveimur og náðu tíu marka forskoti í fyrsta sinn, 37-27.
Sami munur var á liðunum þegar lokaflautið gall. Lokatölur 39-29, Íslandi í vil. Íslendingar enduðu undankeppnina því vel en tapið í Litáen svíður enn sárt.
Framundan er enn eitt Evrópumótið sem verður haldið í Ungverjalandi og Slóvakíu í byrjun næsta árs.